Uppsagnir í fiskvinnslu

Fimmtudaginn 24. janúar 2008, kl. 10:39:06 (3968)


135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek í reynd upp sama mál og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom inn á, enda málið alvarlegt og ástæða til að ræða það hér á Alþingi. Ég vísa í viðtal við Aðalstein Baldursson, formann Verkalýðsfélags Húsavíkur, en hann fer fyrir fólki í matvælaiðnaði innan Starfsgreinasambands Íslands. Hann hefur öðrum fremur vakið athygli á því ófremdarástandi sem skapast hefur vegna holskeflu uppsagna fiskvinnslufólks. Hann hefur vakið athygli á því sem enn er í pípunum, að fyrirhugaðar eru lokanir í fiskvinnslunni tímabundið, stundum í alllangan tíma, jafnvel allt að fimm mánuði. Nefni ég þar Þingeyri og Húsavík sérstaklega.

Nýverið var 70 starfsmönnum sagt upp á Eyjafjarðarsvæðinu, 50 starfsmenn eru í óvissu á Húsavík, fækkun er fyrirsjáanleg á Raufarhöfn, 30–40 koma til með að missa vinnuna á Þingeyri, fækkun er fyrirsjáanleg í Vestmannaeyjum og fleiri uppsagnir eru í pípunum. Nú hefur komið í ljós að margboðaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar duga ekki, þær mæta ekki heldur þeim vanda sem þetta fólk stendur frammi fyrir. Sú staða sem nú er uppi gefur okkur innsýn í tvennt, hún gefur okkur innsýn í aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og í ranglátt kvótakerfi (Forseti hringir.) þar sem kvótahafar geta ráðstafað lífi einstaklinga (Forseti hringir.) og heilla byggðarlaga. Við óskum eftir því að fá nánari upplýsingar frá hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) hvað hún hyggist gera til að mæta þeim mikla vanda sem þetta fólk stendur frammi fyrir.