Álver í Helguvík

Fimmtudaginn 24. janúar 2008, kl. 10:45:22 (3972)


135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

álver í Helguvík.

[10:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar til umhverfisráðherra er mengunarkvóti fyrir álver í Helguvík. Tilefnið er að Norðurál hyggst byggja álver í Helguvík og hefur auglýst eftir starfsfólki til starfa í álveri í Helguvík. Eftir því sem mér skilst er ekki búið að úthluta eða ákveða að álverið í Helguvík fái mengunarkvóta. Þess vegna ber ég upp þessa spurningu.

Suðurnesjamenn þurfa á álveri að halda. Það er mikil breyting á atvinnuháttum á Suðurnesjum. Varnarliðið fór fyrir einu og hálfu ári. Margt starfsfólk sem vann þar er reyndar með atvinnu en fær í mörgum tilfellum bara einn þriðja af fyrri launum eða helmingi lægri laun en það hafði þegar það var í vinnu hjá varnarliðinu. Niðurskurður í þorskkvóta, kvótakerfið, hefur haft veruleg áhrif á Suðurnesjum. Suðurnesjamenn sækja töluvert vinnu á höfuðborgarsvæðið. Uppsagnir eru núna í sjávarútvegi, allt hefur þetta áhrif á stöðu atvinnumála á Suðurnesjum til framtíðar litið.

Það er væntanlegur samdráttur í húsbyggingum sem hafa þó skapað mikla atvinnu á svæðinu þannig að ýmisleg ytri skilyrði eru að versna og munu versna enn meira. Margar útgerðir eru til sölu, sérstaklega smábátaútgerðir, sem hefur, reyndar kannski sem betur fer, ekki verið hægt að selja enn þá. Mótvægisaðgerðir hafa ekki virkað fyrir okkur Suðurnesjamenn.

Þess vegna ber ég þessa spurningu upp til hæstv. umhverfisráðherra, hvort ákveðið hafi verið að (Forseti hringir.) veita mengunarkvóta til álversins í Helguvík.