Sérstaða Íslands í loftslagsmálum

Mánudaginn 04. febrúar 2008, kl. 15:34:54 (4300)


135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

sérstaða Íslands í loftslagsmálum.

[15:34]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi málflutningur stenst ekki. Hæstv. ráðherra er í algjörri mótsögn við sjálfa sig, segir að hér sé um eina tegund starfsemi að ræða þegar hún vitnar til íslenska ákvæðisins. Þar er verið að tala um iðnaðarframleiðslu.

En hvað er flugstarfsemi? Er það ekki ein tegund af starfsemi? Þetta er alveg sambærilegt, virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki ætlast til þess að aðilar taki tillit til okkar á sviði sem er ekki umhverfisvænt, þ.e. í fluginu — við notum þar sömu orkugjafa og aðrar þjóðir — en ætla svo ekki að vinna að því að fá sérstöðu okkar viðurkennda gagnvart endurnýjanlegri orku sem er umhverfisvæn.

Virðulegur forseti. Ég tel alveg einsýnt að við eigum að halda í íslenska ákvæðið. Við eigum líka að fá viðurkennda sérstöðuna gagnvart flugi, en hæstv. ráðherra verður að vera samkvæm sjálfri sér. Annað er ekki boðlegt.