Almannatryggingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2008, kl. 16:03:32 (4383)


135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir hvert orð sem fram kom í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman, sem er 1. flutningsmaður að þessu þingmáli en ég flyt einnig málið með henni. Við höfum staðið að svipaðri tillögusmíð í alllangan tíma. Þetta frumvarp, að uppistöðu til með einhverjum breytingum, var upphaflega lagt fram á 131. þingi en áður hafði ég lagt fram frumvörp eins og getið er um í greinargerð frá 122. þingi. Þessi áralanga barátta hefur haft eitthvað að segja, tel ég vera, að sjálfsögðu erum við ekki ein um hituna, það eru margir sem leggja mjög ríka áherslu á að knýja fram úrbætur á þessu sviði en á síðustu árum hefur hv. þm. Þuríður Backman verið þar í forustu. Hún er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingflokks okkar, í heilbrigðisnefnd og hefur verkstýrt okkur hvað þetta snertir.

Ég vil vekja athygli á vandaðri greinargerð sem fylgir frumvarpinu með ýmsum athyglisverðum upplýsingum. Það fyrsta sem ég vildi nefna sem kemur fram í greinargerðinni er sú áhersla sem þar er lögð á að líta beri á þennan málaflokk og úrbætur á þessu sviði annars vegar út frá heilsufarslegu sjónarhorni og síðan einnig kjaralegu og félagslegu sjónarhorni. Ég ætla að víkja að hvoru tveggja.

Í greinargerðinni er vísað í ýmsar skýrslur og kannanir sem gerðar hafa verið og þar kemur fram að tannheilbrigði þjóðarinnar hefur farið mjög batnandi á undanförnum árum og áratugum. Það á við bæði um börn og unglinga og einnig aldraða. Hér er vísað í skýrslur þar sem fram kemur varðandi börnin, að þeim fer fækkandi í yngstu aldurshópunum sem eru með slæma tannheilsu og einnig ljóst að tannheilsa aldraðra hefur batnað verulega.

Í þessu eru svo ýmsar mótsagnir því að það kemur jafnframt fram að þeim virðist fara fjölgandi sem engrar tannverndar njóta, börnum sem eiga ekki kost á því eða leita ekki til tannlæknis fer fjölgandi. Við höfum oft bent á það við þessa umræðu að sá hópur, sem er aðeins brot af hverjum árgangi, sennilega á milli 10 og 12%, er sá hópur sem samfélaginu ber fyrst og fremst að líta til. Þegar tannlækningarnar voru teknar út úr skólunum var vegið að þessum hópi vegna þess að þetta var hópurinn sem ekki fékk stuðning heiman frá sér til þess að sækja til tannlækna. Það var að mínum dómi mjög misráðið að taka tannlækningarnar út úr skólunum, mjög misráðið. Það er alveg augljóst að það þarf að koma verulega öflugt átak til þess að ná til þessa fólks.

Ég segi að þarna sé iðulega um að ræða börn og unglinga sem ekki fá stuðning frá heimilum sínum en það er einnig önnur ástæða. Það er ekki bara andvaraleysi, það er líka peningaleysi. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í rannsókn sem gerð var á vegum landlæknisembættisins árið 1997 sem leiddi í ljós að það var þegar farið að bitna á heilsufari barna og unglinga ef um var að ræða samdrátt í tekjum fjölskyldna. Tekjulágar fjölskyldur, fátækar fjölskyldur höfðu með öðrum orðum ekki ráð á því að senda börn sín til tannlæknis, það var fyrst og fremst þar sem tekjuleysið kom í ljós, varðandi tannlækningarnar.

Þess vegna höfum við lagt ofuráherslu á að gera tannlæknaþjónustu, tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir börn og unglinga. Í þessu skrefi viljum við færa aldurstakmarkið upp í 20 ár, það er núna í 18 árum, og við viljum gera þessa þjónustu, þessar lækningar alveg gjaldfrjálsar. Framan af vorum við á því að það ætti að halda því opnu að fólk borgaði eitthvert örlítið hlutfall, við vorum reyndar með tillögu um 10% og við vildum binda það við möguleikana á eftirliti, á aðhaldi og eftirliti, en þegar það væri komið til sögunnar — sem núna er með allri tölvutækni samtímans — þá væri óhætt og rétt að færa þetta viðmið upp.

Hér erum við hins vegar að tala um hlutfall af gjaldskrá ráðherra. Við erum ekki að tala um 100% greiðslu fyrir það sem tannlæknar setja upp og erum við þá komin að vanda sem við stöndum frammi fyrir, sem almannatryggingar standa frammi fyrir, vegna þess að tannlæknar og núna hjartalæknar einnig standa í reynd fyrir utan almannatryggingakerfið, eru frjálsir að því að setja sína eigin gjaldskrá. Ríkið borgar tiltekið hlutfall, það á við um tannlæknana, tiltekið hlutfall samkvæmt gjaldskrá sem ráðuneytið eða ráðherra setur eða er ábyrgur fyrir en tannlæknar eru síðan frjálsir að koma með álagningu ofan á það.

Ég tel að tvennt þurfi að gerast þarna. Í fyrsta lagi tek ég undir það sem hv. þm. Þuríður Backman nefndi, að gjaldskrá ráðherra þurfi að hækka, hún hefur ekki hækkað í nokkur ár, ég held frá 2004, og þyrfti til að halda í verðlag að hækka um 30% eða þar um bil, bara til að halda í verðlagið. (Gripið fram í: Ég er að tala um gjaldskrá …) Ég er að tala um gjaldskrá ráðherra að hún þyrfti að hækka. (Gripið fram í.) Já, ég er leiðréttur hérna. Eins og fram hefur komið í máli mínu fram til þessa er ég að tala um gjaldskrá ráðherra að hún hafi ekki hækkað frá, held ég, árinu 2004 og þurfi að hækka um 30% til að halda í við verðlagsþróun frá þeim tíma.

Hitt sem ég vildi sjá gerast er að tannlæknar færu algerlega undir viðmið almannatrygginga og væru ekki frjálsir að verðlagningu eins og þeir eru núna. Ég tel það vera mjög óheppilega þróun og tel mjög varasamt að verða við kröfum sem heyrast frá ýmsum sérfræðilæknum um að fara inn á þessa braut einnig, ég nefndi hjartalæknana sérstaklega. Ég tel að tannlækningar eigi að öllu leyti heima inni í almenna heilbrigðiskerfinu og sé engin rök fyrir því að greina á milli tannlækninga annars vegar og viðgerða á okkur til líkama og sálar að öðru leyti, það er engin ástæða til þess.

Í grófum dráttum, eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Þuríðar Backman gerum við tillögu um það að tannlækningar verði gjaldfrjálsar, nota bene, samkvæmt gjaldskrá ráðherra, 100% til 20 ára aldurs. Við viljum einnig bæta kjör lífeyrisþega, við viljum færa hluta þeirra sem fá tekjutryggingu upp í 100% en hjá hinum sem ekki fá tekjutryggingu viljum við færa viðmiðið úr 50% í 75%. Þarna erum við því að koma til móts við tvo hópa, börnin, barnafólkið, og síðan elli- og lífeyrisþega.

Það er að mörgu leyti vel við hæfi að þessi umræða skuli koma fram á tannverndardaginn og aðeins undir lokin vil ég minna á mikilvægi þess að samræmi sé á milli orða og athafna. Hv. þm. Þuríður Backman vék að mikilvægi mataræðis þegar heilsuvernd er annars vegar. Lýðheilsustöð hefur líka hamrað á slíkum sjónarmiðum. Hvað gerir þingið síðan? Þegar við vorum með til umræðu frumvarp og lagabreytingar um álagningu á sykurdrykkjum, gosi, þá var hlustað á framleiðendur kóka kóla en ekki Lýðheilsustöð. Síðan fara menn á fína fundi og ráðstefnur úr Stjórnarráðinu og tala um mikilvægi þess að stunda lýðheilsu af kappi. Þarna þarf náttúrlega að vera samhengi á milli orða og athafna.

Ég vísa einnig í ágæta þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér í vor, ég hygg að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur sem flutti þá tillögu og lýtur að aðgerðum til að bæta afkomu barnafjölskyldna. Þar er talað um að tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna og meira segir á sömu leið.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna.“

Út á þetta gengur frumvarp okkar. Hvað gerist síðan þegar ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn samþykkir frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008, hvað gerist þá? Jú, þar er vikið að tannlækningum og á bls. 364 segir, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi er tillaga um 42 millj. kr. til tannlækninga vegna árlegrar aukningar og 15 millj. kr. hækkun sjúkradagpeninga á sömu forsendum.“

Með öðrum orðum, hér er ekki um að ræða neina aukningu að raungildi, enga aukningu að raungildi. Þarna kem ég aftur inn á það gap sem er á milli, annars vegar orða og hins vegar athafna. Á þetta vildi ég leggja áherslu, hæstv. forseti. Eins og ég gat um áðan höfum við hv. þm. Þuríður Backman og ég lagt fram frumvörp og tillögur um breytingar í þessum efnum í mörg ár, það hafa aðrir þingmenn að sjálfsögðu einnig gert og viljað bæta þennan málaflokk og efla tannverndina og auka aðkomu ríkisins að honum og auðvitað er þetta spurning um að við náum saman sem erum að berjast fyrir því að svo verði. Ég vona að þetta frumvarp verði lóð á þær vogarskálar og verði tekið til alvarlegrar umræðu í heilbrigðisnefnd þingsins eins og hv. 1. flutningsmaður, Þuríður Backman, lagði til að þessu frumvarpi yrði vísað til.