Mannréttindabrot í Guantanamo -- mjólkurkvótar

Miðvikudaginn 06. febrúar 2008, kl. 13:41:03 (4399)


135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:41]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eins og ég sagði þann 17. janúar síðastliðinn í umræðum um fangabúðirnar í Guantanamo þá hafa Bandaríkin verið fyrirmynd mín um vestrænt lýðræði og ég hef horft til þeirra sem leiðandi í mannréttindum, lýðræði og frelsi einstaklingsins. Þess vegna fordæmi ég sérstaklega þessa ótrúlegu tilraun þeirra í Guantanamo að kanna hversu langt hægt sé að ganga í að brjóta og fótumtroða mannréttindi. Ég skora á Bandaríkin að loka þessum búðum og má þennan blett af sögu sinni.

En svo höfum við líka heyrt af fangaflugi þar sem fangar eru fluttir frá Bandaríkjunum til landa sem leyfa pyndingar. Ef slíkt væri satt þá er það óheyrileg tilraun til að brjóta mannréttindi, óheyrileg, herra forseti, og ég hlýt að fordæma það alveg sérstaklega. Ég skora á íslensk stjórnvöld að fylgjast náið með þessu máli öllu saman og ég undirstrika það að vernd mannréttinda sé eitt æðsta baráttumál bæði hæstv. ríkisstjórnar og hv. Alþingis og ég vil að Alþingi geri sitt ýtrasta til að hindra að slíkar tilraunir í niðurbrotum á mannréttindum séu liðnar.