Háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 11:12:19 (4464)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að hér gefist tækifæri til að ræða málið sem hér hefur verið gert að umtalsefni í þingsal, koma upplýsingum á framfæri og heyra í þingmönnum hvað það varðar.

Þetta er sams konar spurning, virðulegur forseti, og í óundirbúinni fyrirspurn sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson beindi til mín á mánudag um hvað liði háhraðatengingum landsins. Við ræddum þá um sama efni og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson tekur upp nú með þeim spurningum sem hann leggur fyrir mig.

Ég ítreka að það er gott að þessi umræða skuli eiga sér stað. Það er margt að gerast í þessum efnum, í raun er málið sannarlega á háhraða. (Gripið fram í: Já.) Hv. þingmaður spyr: Hvað líður háhraðatengingum landsins alls hvað varðar útboð? Útboð mun eiga sér stað næstu daga í febrúar, þá verður útboð sett fram.

Það er rétt sem hefur komið fram að áður unnu menn út frá því að þetta væru í kringum 200 býli. Nú hefur komið í ljós að þau eru 1.500 talsins. Fyrirtæki á markaði hafa sýnt okkur þau svæði sem þau ætla að sinna á markaðslegum forsendum, sem eru minni en áður var ætlað. Bæirnir sem verða því 1.500. Það hefur að sjálfsögðu gert útboðið töluvert flóknara og skýrir þær tafir sem orðið hafa. Fjarskiptasjóður þurfti að fara um landið og hnitsetja alla bæi til að gera útboðið betra og markvissara. Þau gögn voru ekki til.

Varðandi fyrstu spurninguna um háhraðatenginguna, sem er ári á eftir áætlun, þá mun útboðið fara fram á næstu dögum. Þar mun gert ráð fyrir 2 megabæta lágmarkstengihraða.

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna, eins og hæstv. utanríkisráðherra skýrði frá 15. ágúst í fyrra þegar við tókum yfir Ratsjárstofnun og ræddi þar um NATO-ljósleiðarapörin þrjú sem eru í strengnum, að sú vinna hefur verið á fleygiferð en gengur hægar en maður hefði óskað, m.a. vegna þess að Mannvirkjasjóður NATO á þau en ekki Bandaríkjamenn þannig að yfirfærslan er ekki auðveld. Ef þessi NATO-ljósleiðarapör væru á markaði hjá fyrirtækjum sem væru í samkeppni hygg ég að við mundum sjá betri niðurstöðu í háhraðaútboðinu hvað það varðar. Hins vegar er einnig unnið af fullum krafti við að reyna að koma þessum NATO-ljósleiðarapörum í borgaraleg not eins og hæstv. utanríkisráðherra talaði um. Það held ég að muni valda algjörri byltingu ofan á útboðið sem fram fer í þessum mánuði.

Virðulegi forseti. Ég vil líka geta þess að síðast á fundi í samgönguráðuneytinu í morgun sáum við kort sem gerir ráð fyrir að í lok þessa árs verði allt Ísland, helstu ferðamannasvæði og miðin, allt að 80–100 km út frá ströndinni, komið í fullkomið GSM-samband. Þau kort sem við höfum séð frá fyrirtækjum sem að þessu vinna, Símanum, Vodafone — Síminn með GSM-útboð 1 og Vodafone með GSM-útboð 2 — sýna að það sem fyrirtækin eru að gera á markaðslegum forsendum eru stórkostlegir hlutir. Við getum sagt að þetta ár verði bylting í þessum málum líkt og Strandamenn skrifuðu um í síðustu viku þegar sendir var settur upp við Húnaflóa. Þar var talað um byltingu í fjarskiptum á þessu svæði og miðunum.

Virðulegi forseti. Málið er því á sannkölluðum háhraða eins og ýmislegt annað hjá þessari ágætu ríkisstjórn. Hér hefur sannarlega verið gefið í og við sjáum árangur og munum sjá mikinn árangur á árinu 2008.

Hv. þingmaður spyr hvort ríkissjóður muni beita sér fyrir auknum fjárveitingum til Fjarskiptasjóðs ef þörf krefur. Að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin tryggja framgang þessa máls eins og allra annarra góðra mála sem eru skrifuð inn í stjórnarsáttmálann.