Tekjuskattur

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 12:25:04 (4483)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:25]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Þetta er athyglisverð umræða, hún er góðra gjalda verð að skoða í þaula. Þetta hefur t.d. verið tíðkað í Noregi, ef ég man rétt, til að laða að sérfræðinga, lækna, kennara og fleiri út í dreifðari byggðir þar sem hugsanlega er ekki unnt að bjóða upp á sama þjónustustig og í þéttbýlinu vegna þess að það er útilokað í framkvæmd.

Að því er varðar síðan hugsanlega misnotkun þá eru fá kerfi sem ekki eru misnotuð í sköttum og öðru. Ég hygg þó að við höfum ákaflega skýr fyrirmæli í lögheimilislögum um hvar menn halda heimili sitt. Það yrði að mínu mati hluti af skatteftirliti án þess að ég neiti því að menn muni eflaust reyna að fara í þá holu sem gæti myndast þar. Ég neita því ekki sem vænta má. Ég hygg að við setjum ekki reglur eftir undantekningunum heldur meginreglur.

Mér finnst þetta atriði sem er vel skoðunarvert til að laða að menntafólk í hinar dreifðari byggðir og slíkt, viðkomandi grein greiði lægri skatta vegna þess að þjónustustigið sé verra. Ég sé ekki neitt í spilunum um að bæta eigi þjónustustig á landsbyggðinni, til að mynda að því er varðar aðgengi að menntun, læknisþjónustu og fleiru.