Einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 13:55:38 (4500)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:55]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum er ljóst að það er pólitískur vilji til að skapa svigrúm til fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni með útboðum en tilfellið með læknaritarana er reyndar ekki dæmigert þannig mál. Á Landspítalanum vinna 70 manns við að vélrita læknabréf. Þeir hafa ekki annað því verki sem þeim var ætlað vinna og strax síðastliðinn vetur, reyndar í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins þegar hann fór með heilbrigðisráðuneytið, hafði myndast mikill kúfur af læknabréfum sem hafði safnast upp og beið innfærslu. Öryggi sjúklinga getur byggst á því að skráning sé reglubundin og safnist ekki upp.

Nú var ákveðið að fara í það að vinna uppsöfnuð bréf á Landspítalanum. Engum læknaritara verður sagt upp heldur verður keypt utanaðkomandi þjónusta til að klára þetta verk sem eru 30.000 læknabréf á slysa- og bráðadeild. Það má segja að farið hafi verið í nokkurs konar útboð á því verki. Spítalinn kynnti hvers konar verkefni væri í boði upp úr áramótunum og þeir sem höfðu áhuga á að taka verkið að sér buðu í það. Tólf tilboð liggja fyrir og ekki hefur verið ákveðið hverjir fái verkið.

Þessi störf eru dæmigerð störf án staðsetningar sem allir styðja að verði komið á laggirnar. Læknabréf er hægt að rita hvar sem er því að þau eru töluð í gegnum síma. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um þetta verk er persónuverndar gætt mjög vel, enda er þarna um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Þetta verður tilraunaverkefni í sex til átta mánuði og þá verður metið hvernig til hafi tekist. Við skulum fylgjast með því og dæmum ekki verkefnið fyrir fram. Þetta mál er ekki einkavæðing heldur tímabundið verkefni til að leysa uppsafnaðan vanda og skapa um leið störf án staðsetningar sem er svo mikilvægt einmitt núna og án þess að fækka því fólki sem sinnir slíkum verkefnum á Landspítalanum.