Fjáraukalög 2007

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 15:15:56 (4521)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:15]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er illt ef menn verða sífellt daprari eftir því sem þeir koma oftar í pontu og ef ástæðurnar er hægt að rekja til mín þá verður svo að vera. Það hefur að vísu oft gerst að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur orðið dapur við það sem ég hef látið frá mér fara í töluðu og rituðu máli og það verður bara svo að vera.

Ég er ekki að blanda þessu saman á neinn hátt. Ég vakti máls á því og vakti athygli þingmanna á því að það er verið að vinna á þessum sama grunni, þ.e. með töku veggjalds, í verkefni sem heitir Vaðlaheiðargöng. Það er líka verið að vinna að verkefni sem heitir Kjalvegur á sama grunni. Ef við ætlum að snúa af þeirri braut, eins og tillaga liggur fyrir um í frumvarpi hv. þingmanna, þá er allt í góðu lagi með það en þá skulum við ræða þessi verkefni öll vegna þess að þá er verið að skjóta út af borðinu þessum möguleika til fjármögnunar í samgöngumannvirki landsins og mér finnst umræðan eiga að snúast um að. Þessi tillaga lýtur þá væntanlega að því að héðan í frá, ef þetta ágæta frumvarp ykkar hv. þingmanna yrði að lögum, er verið að skjóta út af borðinu þessum möguleika til fjármögnunar í samgöngumannvirki. Þannig lít ég á þetta. Þess vegna leyfi ég mér að nefna þessi verkefni sem þegar er verið að vinna að án þess að fara í þetta gamla hrossakaupapólitíska tal, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, sem tíðkaðist áður fyrr og ég hef engan áhuga á að taka þátt í.