Fjáraukalög 2007

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 15:54:48 (4533)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:54]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi einmitt og spurði um trúverðugleikann ef menn færu í Hvalfjarðargöngin á tiltekinni forsendu með veggjald, þau yrðu greidd með veggjaldinu, en sneru síðan frá þeirri stefnu þegar væri komið hálfa leið á lánstímanum. Mér finnst það ekki rýra trúverðugleika þessara áforma í upphafi þó að menn hafi þessa skoðun í dag vegna þess sem ég gat áðan að aðstæður hafa breyst og ríkið á mikinn þátt í því með vegagerð sinni til Suðurnesja og Suðurlands, þannig að mér finnast það vera alveg fullgild rök til þess að mæta breyttu sjónarmiði. Mér finnst það líka góð rök sem komu fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni að hringvegurinn ætti að vera gjaldfrjáls. Mér finnst það virkilega góð rök og get alveg fallist á það sem grundvöll í einhverri gjaldtökustefnu sem ríkið kann að koma sér upp í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi eitt dæmi sem mér finnst alveg sérlega gott dæmi um það sem menn ættu kannski ekki að gera og það er Tónlistarhúsið á hafnarbakkanum, tónlistar- og ráðstefnuhús sem áætlað er að kosti 14 milljarða kr., en ríkið og Reykjavíkurborg borga þá framkvæmd á 35 árum og ef ég man rétt borga þeir 700 millj. kr. á ári samanlagt, sem þýðir að þeir eru að borga 24,5 milljarða kr. fyrir framkvæmd sem kostar 14 milljarða kr.