Endurskoðun á skattamálum lögaðila

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 16:53:22 (4551)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[16:53]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á skattamálum lögaðila.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hefja nú þegar endurskoðun á skattamálum lögaðila, einkum einkahlutafélaga.“

Flestum er kunnugt að skattar hafa löngum verið vinsælt umræðu- og viðfangsefni bæði þings og þjóðar og þarf það ekki að koma á óvart. Skattlagning tekna felur í sér að af launum og afrakstri hvers einstaklings er tekinn hár tollur, ef svo má segja. Það fé rennur til sameiginlegra verkefna og þjónustu í samfélaginu sem innt er af hendi af ríki og sveitarfélögum. Ber þar hæst heilbrigðismál, skólamál og öryggismál enda er sú krafa skýr og það viðhorf ríkjandi að það sé skylda hins opinbera að veita alla slíka grundvallarþjónustu, sem er um leið helsta stolt velferðarsamfélagsins, a.m.k. hér á landi.

Meðan samhljómur er um hina opinberu þjónustu er afar sjaldan sátt um skattlagninguna og þau skatthlutföll sem lögð eru á þegnana. Við viljum að jafnræði ríki þegar kemur að útgjöldunum og eitt eigi yfir alla að ganga í aðgengi að þjónustu og þar af leiðandi er sanngjarnt að fara fram á að jafnræðis sé sömuleiðis gætt í álagningu skatta, í því hvernig skattarnir leggjast á borgarana. Því miður er víðs fjarri að svo sé. Jafnræðissjónarmiðum hefur verið ýtt til hliðar og vissum þjóðfélagshópum fengin veruleg skattaleg forréttindi í skjóli óljósra og ósannaðra fullyrðinga um hættuna á flótta fólks og fjármagns frá Íslandi eða með vísan til eðlis tekna viðkomandi skattþega.

Ég bendi í því sambandi á fjármagnstekjuskattinn, sem er tiltölulega nýr skattur hér á landi. Sá skattur byggist á fjármagnstekjum, hvort heldur er í sparnaði eða fjárfestingu. Á sama tíma er fjárfesting launafólks í gegnum lífeyrissjóðakerfið skattlögð með allt öðrum hætti þrátt fyrir að þar sé um sparnað að ræða sem meira að segja er lögbundinn. Ég hef áður bent á þetta misræmi en hef því miður enn sem komið er talað fyrir daufum eyrum. Það mál er út af fyrir sig ekki á dagskrá, nema þá á ská ef svo má segja, Fjármagnstekjuskatturinn er ekki með beinum hætti efni þessarar tillögu sem hér er lögð fram heldur það skattalega misrétti sem fjallað er um og tengist lágu skatthlutfalli af fjármagnstekjum.

Í árslok 2001 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt, m.a. var skatthlutfall hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð lækkað úr 30% í 18% og skatthlutfall annarra lögaðila úr 38% í 26%. Í athugasemdum og rökstuðningi með því frumvarpi, sem síðar varð að lögum, kom fram að grundvallarforsenda þessara breytinga væri sú að ætla mætti að þær mundu leiða til aukinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flyttu starfsemi sína til útlanda.

Auðvitað er hin svokallaða samkeppni milli landa engan veginn hafin yfir gagnrýni. Hitt er þó mun alvarlegra að mínu mati þegar slíkur málatilbúnaður er notaður til að stofna til verulegs skattahagræðis fyrir stóran hóp þjóðfélagsþegna sem ljóst er að ekki á í neinni samkeppni við atvinnurekstur í öðrum löndum. Með áðurnefndri lagasetningu gafst þeim sem stundað höfðu margvíslega þjónustustarfsemi og aðra skylda starfsemi, sem eingöngu snýr að innanlandsmarkaði, kostur á að breyta starfseminni úr einstaklingsrekstri í félagsform og njóta þannig verulegrar skattalækkunar á stórum hluta tekna sinna. Í dag nemur þessi lækkun um 10% og 10% munur á skatthlutfalli er verulegt skattamisrétti.

Sá hópur sem nýtur forréttindanna sparar sér að lágmarki, að því er mér er sagt, um milljarð kr. á hverju ári en sennilega er það hærri upphæð. Slíkt misrétti hefur þó ekki aðeins fjárhagsleg áhrif heldur ekki síður skekkir það jafnframt alla lýðræðislega umræðu og eðlilega framþróun skattamála. Vegna tilhögunar skattkerfisins vill svo til að sá aðili sem verður fyrir beinu tapi í þessum sérkennilega skattaleik eru sveitarfélögin sem fá ekki neitt af fjármagnstekjuskatti. Háværar umkvartanir þeirra hafa ekki farið fram hjá neinum.

Einkahlutafélög er það félagsform sem best hentar í þessu skattaumhverfi enda hefur fjölgun einkahlutafélaga verið með ólíkindum síðan umrædd lög voru sett á árinu 2001. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru þau vel yfir 25 þús. eða 26 þús. talsins. Hin einfalda aðferð til að hagnast sem mest í þessum leik er að taka sem lægst laun hjá félaginu og greiða sem hæstan arð af hlutafénu. Í einkahlutafélagi er helsti launþeginn yfirleitt jafnframt ráðandi í stjórn félagsins og semur við sjálfan sig um kaup og kjör.

Þegar farið var í lagabreytinguna á sínum tíma var lögð áhersla á að endurnýjuð ákvæði um svokallað reiknað endurgjald kæmu í veg fyrir að menn kæmust langt í að breyta launatekjum í arð af hlutafé. Vissulega hafa verið gerðar lítils háttar lagfæringar á skilgreiningu þessa reiknaða endurgjalds en engu að síður var fullkomlega ljóst á þeim tíma, þegar hagsmunir eru jafnmiklir og hér um ræðir, að slík ákvæði mundu engan veginn ná tilgangi sínum. Komu þar til ýmis atriði sem ég mun ekki fjölyrða um að svo stöddu.

Til að bregða ljósi á framkvæmd þessara mála lagði ég síðasta vor fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um reynsluna sem fengist hefði af umræddum skattalagabreytingum að því er varðar skatta á einkahlutafélög og hluthafa þeirra. Með svörum hæstv. ráðherra fékkst staðfesting á því að þessi mál eru í allsendis ófullnægjandi farvegi. Við blasir að mikill meiri hluti þessara félaga er ekki í rekstri sem á í samkeppni við önnur lönd. Hins vegar hefur verið gengið ótrúlega langt í því að greiða hluthöfum einkahlutafélaga arð í stað launa. Á árinu 2005 greiddu samkvæmt upplýsingum frá hæstv. ráðherra 1.752 einkahlutafélög arð sem var umfram 100% af hlutafé. Arðshlutfallið hjá þessum félögum var að meðaltali 650%.

Þá spyr maður, frú forseti: Var þetta tilgangur laganna? Er það í samræmi við sanngjarnt og réttlátt skattkerfi að þúsundir skattgreiðenda geti hagrætt sköttum sínum með því að telja óeðlilegan hluta af tekjum sínum fram sem arð í stað launa? Er það í samræmi við sanngjarnt og réttlátt skattkerfi að með hækkandi tekjum lækki það hlutfall sem greitt er í skatt? Fer nokkuð á milli mála að tilurð skattívilnana gagnvart einkahlutafélögum hefur leitt af sér óverjandi mismun á skattbyrði af raunverulegum tekjum einstaklinga?

Frú forseti. Með þessari tillögu er ekki lagt til að skattar á lögaðila verði hækkaðir. Þvert á móti get ég almennt talið vel fallist á að ráðast þurfi í endurskoðun skattalaga sem snýr að atvinnurekstri með það í huga að lækka megi slíkan skatt, ef það reynist rétt að skattalækkanir í prósentum gefi meira af sér í skatttekjur fyrir hið opinbera. Því er gefið undir fótinn í stjórnarsáttmálanum og ekkert nema gott um það að segja. En þá geng ég líka út frá því að almennir skattar og skattar á lífeyrissparnað fólks verði sömuleiðis endurskoðaðir.

Nei, þessi tillaga felur ekki í sér aðför að sköttum lögaðila. Hér er ekki ýjað að því að skattprósentan eigi að hækka né heldur aðrir skattar vegna þess að eitt verður yfir alla að ganga. Tillagan er hins vegar hugsuð sem viðleitni til að ráða bót á því skattamisrétti sem blasir augljóslega við. Í henni felst athugun á því hvort réttmætt sé að öll hlutafélög, hvers eðlis sem þau eru, sitji við sama borð að því er tekjuskatt varðar. Stærstur hluti þessara félaga er í reynd einstaklings- og fjölskyldufyrirtæki með þjónustu eða aðra starfsemi sem bundin er heimamarkaði án allrar samkeppni við útlönd.

Í umræðunni um skattamál lögaðila hér á landi hefur oft verið vísað í gott fordæmi frá Írlandi. Mér er kunnugt um að Írar hafi lögfest sérákvæði um viðbótarskatta á þessum vettvangi, á svokölluð „close companies“, einmitt til að hindra misrétti í sköttum vegna lækkunar skatta á lögaðila. Hliðstæðs eðlis væri t.d. ákvæði um að í tilgreindum flokkum lögaðilanna sem ég hef gert að umtalsefni sé sett hámark á þann arð sem notið geti 10% skatthlutfalls. Tilgangur þessarar tillögu er að afla sem fyllstra upplýsinga frá öðrum löndum í sambandi við þetta mál og afla hvarvetna reynslu og þekkingar í skattamálum sem læra má af.

Það var, frú forseti, borið á mig í umræðu í þinginu fyrr í dag að ég hefði vit á peningum. Ég vil bera af mér þær sakir. Ég held því þó fram að ég hafi það mikið peningavit að ég telji að í þessu máli sé vitlaust reiknað. Málflutningur minn snýst um réttlæti, jafnræði og leiðréttingu á skattamisrétti sem vonandi mundi leiða til þess að við hefðum meira fé í höndum til allra góðra mála í þessu velferðarsamfélagi okkar.

Að svo mæltu, frú forseti, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til efnahags- og skattanefndar.