Aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 19:02:53 (4574)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera.

303. mál
[19:02]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og þeim hugmyndum sem þar koma fram varðandi það að menn skoði öryggisþáttinn og hvernig fyrirtæki standa að öryggismálum þegar afgreidd eru tilboð á vegum ríkisins, að minnsta kosti að það verði íhugað hvort það sé fær leið og möguleg. Ég held að það væri hið besta mál.

Ástæðan fyrir að ég tek þátt í þessu er að ég hafði svolítið, þegar ég heyrði af þessari tillögu, horft til þess hvernig merkingar hafa verið í sambandi við vegaframkvæmdir sérstaklega, ekki bara á Reykjanesbrautinni heldur mjög víða. Það vill nefnilega þannig til mjög oft að það koma upp viðvörunarmerki vegna framkvæmda þar sem tæki eru að vinna einhvern ákveðinn tíma af deginum en merkingarnar eru gjarnan látnar vera jafnvel heilu helgarnar eða heilu næturnar, kannski um takmarkaðan hámarkshraða, algerlega að tilefnislausu. Þetta veldur því að maður tekur kannski síður mark á þessum viðvörunum, keyrir kannski á vegi þar sem almennt er 90 km hámarkshraði en það er merkt að maður megi aðeins fara á 50 km hraða og það er engin ástæða til að hægja á umferðinni nema vegna þess að þar er umferð vegna framkvæmda. Sú umferð á sér til dæmis ekki stað kannski um helgar eða á nóttunni eða á öðrum slíkum tímum. En þá er þessum merkingum ekkert breytt. Þetta þýðir að maður veit eiginlega aldrei hvort maður eigi að fara eftir merkingum eða ekki vegna þess að þær eru settar upp nánast óháð því hvort það sé þörf á þeim eður ei.

Ég held þess vegna einmitt í vegagerð sem er gríðarlega mikil í landinu í heild — og þar er nú stór verkkaupi sem er Vegagerðin og ríkið — að það þurfi að herða þarna mjög á og líka það að við gerumst ekki lögbrjótar vegna þess að við förum ekki eftir þessum merkingum sem eru settar upp að tilefnislausu á ýmsum tímum dags.