Skipulagslög

Þriðjudaginn 12. febrúar 2008, kl. 17:33:08 (4699)


135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Mig langar í lok 1. umr. frumvarps til skipulagslaga að þakka hv. þingmönnum fyrir afar efnismikla, góða og málefnalega umræðu í dag. Ég vil rétt í lokin tæpa á nokkrum atriðum og koma inn á það sem helst hefur vakið athygli mína í umræðunni.

Ég vil fyrst svara spurningu hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur um skipulagið á flugvellinum á varnarsvæðinu. Það er nýbúið að fjalla um þessi mál í ríkisstjórn og það er í raun sérstakt skipulagssvæði án þess að ég fari nákvæmlega út í það en það er auðvitað með þátttöku þeirra þriggja sveitarfélaga sem eiga land þarna og sérstakri útfærslu á því. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki fullkomið samræmi hér á milli og það er nokkuð sem umhverfisnefndin verður að taka til greina en það mun væntanlega leysast af sjálfu sér þegar hitt málið er komið alla leið inn á hið háa Alþingi.

Til að svara helstu spurningum sem komið hafa fram í máli þingmanna langar mig að fara yfir eftirfarandi atriði. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á að það skyti skökku við að svæðisskipulag væri einvörðungu skylda á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt 22. gr. frumvarpsins. Ég tel að þetta sé algerlega réttmæt ábending og alveg þess virði að skoða hvort menn vilji setja niður svæðin, fjórðungana t.d. með þessum hætti um landið og gera þá svæðisskipulagsskylda. Það eru auðvitað rökin sem hafa verið fyrir bæði hefðinni og reynslunni sem komið hefur á svæðisskipulagið á höfuðborgarsvæðinu, að menn vilji almennt halda í það þó það hafi kannski ekki alveg virkað eins og flestir vildu þá vilja menn almennt halda í það og það er ekki útilokað að svipað samstarf eða sambærilegt samstarf milli sveitarfélaga annars staðar á landinu leiði af sér skilvirkari og betri vinnu og betri heildarsýn á skipulagsmálin. En það mun hv. umhverfisnefnd að sjálfsögðu taka til umfjöllunar og væntanlega fá umsagnir um.

Hér var rætt um að það yrðu gerðar strangari kröfur skipulagsfulltrúa en forstjóra Skipulagsstofnunar. Því er til að svara að greinin eins og hún er í frumvarpinu er tekin beint upp úr reglugerð þannig að eftir því er starfað og þá verðum við að nálgast málið með öðrum hætti ef þingmenn vilja almennt minnka þessar kröfur sem ég tel að fæstir vilji í raun af því að við viljum hafa faglegar kröfur í lagi til að gæta alls öryggis og góðrar vinnu.

Hvað varðar úrskurðarnefndina þá er helsti vandi skipulags- og byggingarmála að hún hefur ekki fengið þær fjárveitingar á fjárlögum og í afgreiðslum á hinu háa Alþingi í gegnum árin sem hún hefði þurft að fá í ljósi þess málafjölda sem hjá henni hefur verið til afgreiðslu. Það gerðist reyndar við afgreiðslu fjárlaga við þetta ár að hv. fjárlaganefnd bætti í til úrskurðarnefndarinnar og það er vel en það er einfaldlega þannig að þetta er kostnaðarsamur og viðamikill prósess. Auðvitað er von okkar að með þessum breytingum, með lagabreytingum sem hér eru lagðar til verði minna um kærur á þeim þætti vegna þess að það á að setja kynninguna og samráðið fyrr inn í ferlið en nú er gert og þar af leiðandi ætti ferlið að verða betra og minna umdeilt. Það er auðvitað hugsunin á bak við það. En ég tek undir að það er auðvitað ekki viðunandi fyrir hinn almenna borgara eða aðra í landinu að þurfa að bíða mánuðum saman eftir svari frá úrskurðarnefndinni.

Hér hefur einnig verið rætt um hvort ekki sé best að slengja saman Skipulagsstofnun og nýrri byggingarstofnun í eina stofnun enda sé um nátengd verkefni að ræða. Það má vel vera að það sé gott en ég tel hins vegar að sameining slíkra stofnana megi ekki verða bara sameiningarinnar vegna. Litlar ríkisstofnanir eru oft mjög, ekki bara vel reknar heldur líka snarar í snúningum og vinna vel og í því felast líka ákveðin gæði. Það má svo sem líta á það að kannski væri eitthvað fengið með því að búa til eina stofnun en ég tel að undirbyggja þurfi umræðuna um eina stofnun betri rökum en fram hafa komið í dag.

Ég ætla kannski ekki að gera mikið við umræðu sem var á milli tveggja hv. þingmanna um umboðsleysi Sambands ísl. sveitarfélaga. En hefðin er auðvitað sú að mikil og náin samskipti eru á milli ríkisvaldsins og sambandsins. Sú sem hér stendur gerir sér fulla grein fyrir því að sambandið er frjáls félagasamtök en í stórum málum og miklum hagsmunamálum fyrir sveitarfélögin í landinu hefur sambandið og forsvarsmenn þess komið fram og talað fyrir hönd sveitarfélaganna. Þess vegna skiptir það auðvitað mjög miklu að ég sem umhverfisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands gæti að því að virða sveitarfélagastigið og nýta sér þau samskipti sem hægt er að hafa við sambandið og kannski einfalda svolítið samræðuna á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Það þarf líka að vera þannig og það er líka í anda þess sáttmála sem gerður var á milli ríkisstjórnarinnar og sambandsins árið 2006, hygg ég, um mjög náið samráð. Í þeim anda höfum við unnið í umhverfisráðuneytinu og hyggjumst vinna áfram en ég vil hins vegar taka fram að í 11. gr. frumvarpsins kemur fram vegna umræðunnar um landskipulagsáætlun, að einnig eigi að hafa samráð við þau sveitarfélög sem um sé fjallað í landskipulagsáætlun þannig að það er alls ekki þannig að það eigi bara að tala við sambandið í Borgartúninu og engan annan. Það stendur ekki til og stendur ekki í frumvarpinu.

Hvað varðar landskipulagsáætlunina þá gerði ég mér fulla grein fyrir því að það atriði yrði pólitískt hið umdeilda atriði á hinu háa Alþingi og kemur kannski ekki neinum á óvart miðað við það lagaumhverfi sem við búum við. Ég lít hins vegar svo á að hagsmunir landsins alls og þjóðarinnar og hagsmunir sveitarfélaganna fari saman. Ég lít ekki svo á að hér sé um andstæða hagsmuni að ræða þegar verið er að ræða um málefni sem varða þjóðina alla, verið er að ræða almannahagsmuni og finna lausn á þeim hvort sem það er verndun náttúrusvæða á miðhálendi Íslands eða hvar eigi að ganga svo frá að við ætlum að taka frá land til ákveðinnar landnotkunar, frístundabyggðar, orkuöflunar, þjóðgarða og annars slíks, þetta eru mál sem varða alla. Og við höfum orðið þess vör í miklum deilum ekki síst í miklum deilum um umhverfisverndarmál og um umhverfismál á liðnum árum, jafnvel áratugum, að það eru ekki mörkin á milli sveitarfélaga sem ráða afstöðu fólks eða stýra afstöðu fólks öllu heldur. Það er líka ákveðinn réttur sem við höfum sem borgarar landsins til að hafa áhrif á þessar heildarlínur og þess vegna er lagt til að þingsályktunartillaga um landskipulagsáætlun komi inn á hið háa Alþingi.

Hér var gerð athugasemd við að hún færi ekki í kynningarferli eins og aðrar skipulagsáætlanir. Það er meðal annars vegna þess að hún á að hljóta afgreiðslu á löggjafarsamkomunni þar sem saman eru komnir fulltrúar af öllu landinu, fulltrúar allrar þjóðarinnar. Þess vegna kemur þingsályktunartillaga um landskipulagsáætlun inn á hið háa Alþingi en er ekki afgreidd með öðrum hætti eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Það er auðvitað rétt að það þarf að skilgreina, það þarf að afmarka og það þarf að skýra og í þá vinnu þarf að fara. Ég lít svo á, hafandi setið í stjórnarandstöðu í tvö kjörtímabil, að það sé m.a. það umræðuefni sem þurfi að taka í hv. umhverfisnefnd að það sé ekki alltaf besta leiðin að koma inn með fyrir fram gefna niðurstöðu frá hendi framkvæmdarvaldsins. Hér eru lagðar ákveðnar skýrar línur um miðhálendið í frumvarpinu. Það er auðvitað til umfjöllunar í umhverfisnefndinni og nokkuð sem hv. þingmenn þurfa að fara í gegnum. En ég lít svo á að við hljótum að skynja mikilvægi þess að það sem varðar alla þjóðina, ásýnd landsins alls, ímynd þess eins og hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það, hlýtur að vera verkefni löggjafans og allra hér, það sem varðar alla þjóðina. Sveitarfélögin eru hluti af heild og það hlýtur að vera þannig að við eigum að geta haft einhverja leiðbeinandi heildarsýn, áætlun sem er auðvitað endurskoðuð eins og aðrar áætlanir sem koma fyrir hið háa Alþingi og lagt hana fyrir og afgreitt hana hér. Ég vona auðvitað að þingmenn allir sem einn verði komnir á mína skoðun þegar kemur að afgreiðslu þessa máls á hinu háa Alþingi. Ég lít svo á að hagsmunirnir liggi þannig og rökin hneigist þannig að þetta sé mál sem við eigum að geta náð saman um þvert á stjórnmálaflokka.

Hv. varaformaður umhverfisnefndar, Kjartan Ólafsson, ræddi mikilvægi þess að vinnan við þetta frumvarp og þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar færi fram í samfellu og fram á sumarið. Við munum auðvitað gera okkar til þess í umhverfisráðuneytinu að aðstoða og koma með upplýsingar og annað það sem getur gert það að verkum að vinnan gangi vel í umhverfisnefndinni og þetta eru vissulega bálkar, mikilvægir og miklir lagabálkar sem eiga auðvitað líka að standa lengi, eins og sagt hefur verið, og það þarf að vanda til vinnunnar. Ég er ekki að segja að ég geri mér gríðarlegar vonir um að þessi frumvörp verði afgreidd á yfirstandandi löggjafarþingi en ég held hins vegar að við getum komist býsna langt með þau með góðri og massífri vinnu í umhverfisnefndinni því þetta eru mjög vel undirbúin mál. Þau hafa verið um árabil í undirbúningi, víðtæku samráðsferli. Það eru auðvitað ásteytingarsteinar og ágreiningsmál sem þarf að ná eins víðtækri sátt um og hægt er og ég geri mér vonir um að það muni takast, ef ekki á þessu löggjafarþingi þá á því næsta. Við getum því haldið áfram ótrauð þessari vinnu og bætt umhverfi skipulagsmála fyrir sveitarfélögin, fyrir fólkið í landinu, með hagsmuni allra að leiðarljósi.