Brunavarnir

Þriðjudaginn 12. febrúar 2008, kl. 18:37:09 (4710)


135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

brunavarnir.

376. mál
[18:37]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunavarnir. Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögum um brunavarnir vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á löggjöf um byggingarmálefni í frumvarpi til laga um mannvirki. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar sem æskilegt er talið að gerðar verði á lögum um brunavarnir í ljósi reynslu þeirra sex ára sem lögin hafa verið í gildi.

Í frumvarpi til laga um mannvirki eru, eins og ég lýsti í framsöguræðu minni um það, lagðar til margháttaðar breytingar á stjórnsýslu byggingarmála. Er lagt til að hin nýja stofnun, Byggingarstofnun, taki við því hlutverki sem Brunamálastofnun hefur sinnt á grundvelli laga um brunavarnir. Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir að öll ákvæði sem verið hafa í lögum um brunavarnir varðandi hlutverk Brunamálastofnunar færist undir lög um mannvirki og undir Byggingarstofnun. Enn fremur er lagt til að brunamálaráð verði lagt niður.

Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt til að Byggingarstofnun leiti í störfum sínum samráðs við hina ýmsu aðila, þar með talið Samband íslenskra sveitarfélaga. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að sérstakt fagráð starfi að baki stofnunarinnar heldur leiti stofnunin þeirrar ráðgjafar sem hún þarfnast hverju sinni eftir aðstæðum. Útvíkkun á hlutverki stofnunarinnar kallar á samráð við mun fleiri aðila en þá sem setið hafa í brunamálaráði. Eðlilegt er að stofnunin skipuleggi sjálf einhvers konar samráðsvettvang, mismunandi eftir málefnum og málaflokkum sem undir stofnunina heyra. Ekki er talin þörf á að binda slíkt samráð eða fyrirkomulag þess í lög umfram það sem gert er í frumvarpi til laga um mannvirki. Auk þessa er lagt til að skólaráð Brunamálaskólans verði lagt niður í núverandi mynd en í stað þess verði skipað sérstakt fagráð sem hafi það hlutverk að vera Byggingarstofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Gert er ráð fyrir að sömu aðilar tilnefni í fagráð Brunamálaskólans og skólaráð, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna auk þess sem formaður er skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Gert er ráð fyrir að lög um brunavarnir haldi gildi sínu sem sjálfstæð lög og að mestu óbreytt fyrir utan þær breytingar á yfirstjórn málaflokksins sem hér eru raktar, enda hafa þau í aðalatriðum reynst vel frá því að þau voru sett árið 2000.

Meðal annarra breytinga má nefna að lagt er til að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum verði eitt af lögbundnum hlutverkum slökkviliða. Í meira en áratug hafa langflest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu. Björgun fólks úr farartækjum, t.d. eftir umferðarslys, krefst sérhæfðs búnaðar og þjálfunar þeirra sem búnaðinn nota. Þegar beita þarf slíkum tækjum er nauðsynlegt að slökkvilið sé á staðnum vegna eldhættu við farartækið. Hefur því skapast sú hefð að slökkvilið sinni þessu verkefni og er kennsla í meðferð búnaðarins hluti af námsefni Brunamálaskólans. Búnaðurinn nýtist einnig við björgun fólks úr mannvirkjum. Var ákveðið, að höfðu samráði við dómsmála- og samgönguráðuneytið, að lögbinda þetta hlutverk við slökkvilið landsins. Með því að gera verkefnið lögbundið er tryggt að þessi þjónusta sé fyrir hendi á öllu landinu og hún uppfylli tilteknar lágmarkskröfur.

Önnur breyting sem lögð er til er að ákvæðum um slysatryggingu slökkviliðsmanna verði breytt og kveðið á um að þeir njóti sambærilegs réttar til bóta og aðrar starfsstéttir sem sinna hættulegum störfum, svo sem lögreglumenn og sjómenn.

Virðulegur forseti. Ég hef í stuttu máli rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.