Póstþjónusta í dreifbýli

Þriðjudaginn 19. febrúar 2008, kl. 14:46:09 (4742)


135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

póstþjónusta í dreifbýli.

[14:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort tekin hafi verið upp breytt stefna í póstþjónustu, einkum í dreifbýli. Að undanförnu hefur okkur þingmönnum borist erindi frá sveitarstjórnum um skerta póstþjónustu og áform um frekari niðurskurð á þeirri þjónustu vítt og breitt um landið. Hér er um að ræða fækkun póstburðardaga á stórum landsvæðum og lokun pósthúsa, bæði á minni og stærri þéttbýlisstöðum.

Ég minni á þau ákvæði laga um póstþjónustu frá 2002 sem kveða skýrt á um að tryggja landsmönnum greiðan aðgang að póstþjónustu án mismununar, þ.e. að í þeirri alþjónustukvöð sem þar er um að ræða var lögð rík ástæða á að þetta skyldi gilda um landið allt.

Ég minnist digurrar yfirlýsingar frá þáverandi samgönguráðherra um fimm daga póstburð til allra staða á landinu nema þar sem væri sérstaklega slæmt óveður eða samgöngur næðu ekki til. Ég minnist líka yfirlýsingar frá þáverandi þingmanni, hæstv. núverandi samgönguráðherra, þar sem hann gagnrýndi póstþjónustuna, einkavæðinguna og markaðsvæðinguna á póstþjónustunni sem síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir og gagnrýndi stöðug áform og áreiti Íslandspósts í að skera niður þjónustu í hagræðingarskyni.

Nú berast okkur boð um að búið sé að segja upp stórum hópi pósta sem hafa séð um póstþjónustu vítt og breitt um landið og áform um niðurskurð á þessari þjónustu. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru þau fyrirmæli sem hér eru að ganga yfir frá hæstv. ráðherra eða (Forseti hringir.) hvernig standa þessi mál?