Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 19. febrúar 2008, kl. 16:00:18 (4767)


135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[16:00]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leggja á það áherslu að ég var út af fyrir sig ekki að skilgreina námsgögn í stuttu svari mínu við andsvari hv. þingmanns. Ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvað hann les út úr því í þessu efni. Ég hlýt hins vegar að árétta að það má auðvitað ekki vera skilgreiningaratriði á þann veg að menn geti skilgreint obbann af námsgögnum út þannig að eftir sem áður megi taka gjaldið. Ég fagna hins vegar yfirlýsingu hans um að stefnt sé að gjaldfrjálsum framhaldsskóla. Ég skynja það þannig og skil af orðum hans um frumvarpið sérstaklega að vilji sé til, að minnsta kosti að efni til, að það verði unnið áfram á vettvangi menntamálanefndar inn í þá vinnu sem þegar er þar í gangi varðandi þau frumvörp sem hæstv. menntamálaráðherra hefur mælt fyrir. Það er mér að meinalausu þó að það fari þá leið ef það sem stendur í frumvarpinu kemst efnislega í framkvæmd og það verði gert með því að menntamálanefnd sameinist um einhverjar breytingar á framhaldsskólafrumvarpinu sem hæstv. menntamálaráðherra mælti fyrir. Það er auðvitað tilgangurinn með þessu máli. Það er rétt hjá hv. þingmanni að vekja athygli á þessu brýna hagsmunamáli.

Ég minnti á það í framsögu minni að fleiri flokkar, og reyndar flestir flokkar að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, töluðu mjög ákveðið fyrir gjaldfrelsi í framhaldsskólunum og að fella niður innritunar- og efniskostnað. Markmiðið hlýtur að vera að sú hugsun nái inn í framhaldsskólalögin. Einu gildir hvernig það er gert, hvort það er gert með samþykkt þessa frumvarps eða gegnum breytingartillögur við fyrirliggjandi framhaldsskólafrumvarp. En ég skil hv. þm. Guðbjart Hannesson á þann veg að hann muni ljá því máls og stuðning á vettvangi menntamálanefndar að það verði gert.