Fjárhagsleg staða Orkusjóðs

Miðvikudaginn 20. febrúar 2008, kl. 14:58:03 (4853)


135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

fjárhagsleg staða Orkusjóðs.

392. mál
[14:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Heita vatnið er ein af okkar helstu auðlindum og hefur, eins og við vitum, verið mikið notað til upphitunar húsa og til fleiri nota. Því fylgja jafnan mikil lífsgæði í hverju byggðarlagi þar sem hægt er að nýta heitt vatn. Eins og við vitum er ekki alls staðar heitt vatn í jörðu við byggðarlög þannig að þar hefur þurft að notast við raforku að öðrum kosti. Hins vegar er það svo að mörg undanfarin ár hefur verið gert átak í því og unnið að því að leita að heitu vatni á svæðum sem hafa verið talin köld eins og kallað er, leita að heitu vatni til að nýta í viðkomandi byggðarlögum. Sem betur fer hefur orðið nokkur árangur í því á mörgum undanförnum árum og þar hefur Orkusjóður spilað stórt hlutverk, sjóðurinn hefur veitt styrki til rannsókna og leitar og til uppbyggingar á hitaveitu.

Ég hef borið upp fyrirspurnir til hæstv. iðnaðarráðherra sem eru þannig, með leyfi forseta:

1. Hver er fjárhagsleg staða Orkusjóðs vegna leitar að heitu vatni og uppbyggingar hitaveitna á köldum svæðum?

2. Hefur Orkusjóður gert upp alla styrki vegna slíkra verkefna?

3. Hver er framtíðarsýn ráðherra varðandi stuðning við leit að heitu vatni og uppbyggingu hitaveitna á köldum svæðum?

Ég veit að hæstv. ráðherra er mikill áhugamaður um málið og það hefur komið fram í máli hans áður. Þess vegna bíð ég spenntur, og ég veit að þingheimur allur gerir það, að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um málið að segja. Ég vil leyfa mér að hvetja hann til dáða vegna þess að þetta er mikilvægt mál og hefur skilað góðum árangri. Við þekkjum það að því fylgja aukin lífsgæði í byggðum þar sem heitt vatn finnst og hægt er að nýta. Ég bíð því mjög spenntur eftir að heyra hæstv. ráðherra svara þessum spurningum og ég veit að þingheimur allur bíður í ofvæni eftir því.