Garðyrkjuskólinn á Reykjum

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008, kl. 11:03:24 (4886)


135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum.

[11:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það má í rauninni að vissu leyti taka undir þau orð hv. þm. Atla Gíslasonar að það hefur ákveðin óvissa ríkt um framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum, ég er í rauninni sammála því. Nú þegar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri er kominn undir menntamálaráðuneytið mun ég heimsækja Hvanneyri innan tíðar og fara yfir þessi mál, meðal annars yfir framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum. Hins vegar vil ég líka benda á að það er mikilvægt að við stöndum áfram að öflugu námi á þessu sviði, við höfum staðið okkur þokkalega en við viljum efla það. Ég tel að það frumvarp sem nú er til meðferðar í þinginu og snertir breytingar á framhaldsskólanum gefi einmitt Garðyrkjuskólanum á Reykjum mörg tækifæri til að þróa sig og efla.

Eins og staðan er núna mun ég fara mjög gaumgæfilega yfir stöðu Garðyrkjuskólans á Reykjum. Það eru ýmis tækifæri fram undan, m.a. að tengjast öðrum skólum á Suðurlandi en það er seinni tíma mál. Þetta eru þau málefni sem ég mun ræða við rektor á Hvanneyri sem og líka garðyrkjufræðinga sem ég mun hitta á næstunni og landslagsarkitekta einmitt með það í huga hvernig hægt er að efla nám og námsframboð á þessu sviði.