Þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008, kl. 18:06:49 (4954)


135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:06]
Hlusta

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skyldi þó ekki vera að það að þingmenn í landsbyggðarkjördæmunum svokölluðu fái greiddan ferðakostnað feli í sér óforsvaranlega mismunun? Með sömu rökum og hv. þingmaður benti á mætti líta svo á. Með aðstoðarmönnum sem hafa starfsstöð úti í kjördæmunum er verið að auðvelda þetta starf alveg á sama hátt og það er verið að auðvelda starf þingmannanna með því að greiða ferðakostnað fyrir þá. Ef starfið á aðallega að fara fram í sölum þingsins og í nefndasviðinu þá er leikurinn náttúrlega jafn, þ.e. ef menn fengju engan kostnað greiddan nema þingfararkaupið og þeim væri ætlað að vera hér. Það er þá alveg jafnmikil mismunun fólgin í því að greiða hv. þingmönnum ferðakostnað ef þeir færu út í kjördæmi. Ég held að menn ættu að hætta að jagast um þetta. Ég held að það sé í raun og veru góður skilningur á þessum breytingum, ég hef ekki fundið annað og ég hef fengið mjög góð viðbrögð hjá þingmönnum við öllum þessum breytingum, bæði hvað varðar þingskapalögin og sömuleiðis aðstöðu formanna stjórnarandstöðuflokkanna og þingmanna úr þremur kjördæmum. Ég er því mjög sáttur við það sem hér er verið að gera og vænti þess að við getum sem allra fyrst lokið þessu máli þannig að hægt verði að taka næsta skref sem er að mínu mati það að bæta að öðru leyti almenna starfsaðstöðu allra þingmanna.