Sértryggð skuldabréf

Þriðjudaginn 26. febrúar 2008, kl. 16:28:29 (5099)


135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

sértryggð skuldabréf.

196. mál
[16:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég stend að þessu nefndaráliti frá hv. viðskiptanefnd. Ég vil þó árétta að sérstök ástæða er til að standa vörð um Íbúðalánasjóð þannig að við séum hér ekki á neinn hátt að samþykkja eða afgreiða lög sem skerða eða takmarka möguleika hans til þess að vera sá félagslega öflugi sjóður sem við viljum að hann sé, alla vega meðan við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum mikla áherslu á að standa að baki Íbúðalánasjóði og við viljum að hann sé fær um og hafi það hlutverk að veita öllum einstaklingum lán til húsnæðiskaupa og geti einnig staðið undir þeim félagslegu kröfum sem við viljum líka standa að við uppbyggingu félagslegs húsnæðis, til dæmis til leigu fyrir þá sem þess óska.

Ég vil bara láta koma fram hér í umræðunni um þetta mál þær áherslur sem við höfum sérstaklega hvað Íbúðalánasjóð varðar og við vörum við öllum áformum sem eru uppi og koma fram af og til hér frá markaðshyggjuöflunum í Sjálfstæðisflokknum og reyndar líka þeim armi Samfylkingarinnar í þá veruna að það eigi að þrengja að Íbúðalánasjóði. Sum orð sem hafa verið látin falla af fulltrúum þessara aðila um Íbúðalánasjóð hafa verið mjög óviðeigandi og ganga þvert á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Herra forseti. Þessa ætlaði ég bara að geta hér varðandi afgreiðslu á þessu máli, þ.e. að ítreka og árétta mikilvægi og stöðu Íbúðalánasjóðs og víðtækt og öflugt hlutverk hans gagnvart því að tryggja öllum aðgang að því að eignast eigið húsnæði á sem bestum kjörum eða þá eiga möguleika á að taka húsnæði á leigu og leigja sér húsnæði á eðlilegum, viðunandi og sanngjörnum kjörum.