Athugun á hagkvæmni lestarsamgangna

Þriðjudaginn 26. febrúar 2008, kl. 17:32:07 (5107)


135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

402. mál
[17:32]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um þingsályktunartillögu sem 12 þingmenn úr öllum flokkum flytja um athugun og hagkvæmni lestarsamgangna, þá er það ágætt hvað tillagan hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum og mikið verið rætt um hana, það er hið besta mál. Ég vil koma aðeins inn í umræðuna vegna þess að það er alveg klárt að í stefnuyfirlýsingu þeirrar ágætu ríkisstjórnar sem nú situr er fjallað mjög mikið um samgöngumál, að ráðist verði í stórátak í samgöngumálum og aukin áhersla lögð á umferðaröryggi og almenningssamgöngur og ríkisstjórnin muni beita sér sérstaklega fyrir úrbótum í samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Eftir þessu er verið að vinna þó að vafalaust finnist mörgum það ganga of hægt og sá sem hér stendur er einn af þeim vegna þess að hann er óþolinmóður og vill hrinda framkvæmdum sem fyrst í gang.

Tillagan sem hér er flutt er tillaga til þingsályktunar um það að fela samgönguráðherra að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkur og Reykjavíkur annars vegar og hins vegar léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu, að kannaðir verði kostir og gallar þessa, eins og þarna kemur fram. Kostirnir eru vafalaust margir en gallarnir eru örugglega líka einhverjir og þá sérstaklega kostnaðurinn. Þó svo að ekki sé tekið tillit til umhverfiskostnaðar í þeim tveimur skýrslum sem hv. þingmaður hefur rætt um og ég hef lesið yfir, þá virðist mér það því miður þannig ef skoðuð er skýrsla gerð fyrir Orkuveitu Reykjavíkur af umhverfis- og tæknisviði, dags. 26. júlí 2002, gerð af Ístaki, um hagkvæmniúttekt á járnbraut milli Reykjavíkur og Keflavíkur, annar áfangi, samantekt, að niðurstöðutölurnar frá sjónarhóli hagkvæmni séu þannig að framkvæmdin sé ekki réttlætanleg miðað við þær forsendur sem voru notaðar.

Það getur vel verið að það eigi við í þeirri skýrslu sem 1. flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, fjallaði um að það komi fram að sennilega séum við Íslendingar allt of fá til að standa undir þessum kostnaði. En sannarlega er það framfaramál og sannarlega er það þannig að umhverfismálin eru og hafa mikið vægi og okkur er alvara í því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum sem annars staðar en spurningin er bara: Hvað er best?

Vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi um lestina sem átti að fara milli Reykjavíkur og Keflavíkur á 10 mínútum þá þótti mér dálítið athyglisvert, ef ég hef heyrt það rétt, ég tek það reyndar skýrt fram að ég á eftir að hlusta á það aftur, að í Silfri Egils í viðtali Egils Helgasonar við tvo arkitekta hafi komið fram að það gæti tekið 10 mínútur að komast frá Reykjavík, nú veit ég ekki hvaðan, til flugvallarins hvar sem hann verður þegar menn voru að tala um breytinguna á Vatnsmýrinni. Þetta þótti mér nokkuð merkilegt og það getur vel verið að tækninni fleygi fram og það verði hægt að skutla okkur suður í Keflavík á 10 mínútum í lest en ansi er ég hræddur um að kostnaðurinn muni vaxa dálítið við þann stofnkostnað og ekki bætir það þá rekstrarskilyrðin sem í raun og veru fengu falleinkunn í þessari skýrslu sem gerð var í júní 2002.

Það er margt sagt um þetta og hvað er best varðandi almenningssamgöngur. Þær þurfum við að sjálfsögðu að efla, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það er ódýrari leið en fjölga akbrautum og byggja mislæg gatnamót og allt það þó svo að það þurfi auðvitað líka að gera vegna þess að við erum langt á eftir hvað það varðar.

Það hefur margt verið rætt og til mín kom maður sem heitir Helgi Pétursson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, nú starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur. Hann ræddi við mig um þetta og skýrði mér frá ferð sem hann hafði farið á vegum Orkuveitu Reykjavíkur til Tórínó á Ítalíu þar sem var verið að skoða strætisvagna sem mér skilst að séu nú orðnir 35 talsins, vagna sem byggja á svokallaðri spantækni sem ég kann ekki að útlista vel. Spantækni hefur verið notað á Íslandi og einhverjir munu nota hana núna seinni partinn, kannski byrjaðir að nota við eldamennsku í kvöld en þar er notað rafmagn en spantækni byggist á því að strætisvagnar eru búnir henni og þar sem þeir koma á stoppistöðvarnar þá á sér stað einhver snögg snerting tveggja flata sem hleður þá batteríið inni í strætisvögnunum til næstu ferðar. Það gerir það að verkum sem mér skilst að sé best við þetta, að batteríin geta orðið minni en annars hefði verið. Þetta er enn ein aðferðin sem býðst, í þingsályktunartillögunni er fjallað um vetnisstrætóana sem eru tveir eða þrír, metangasbílana og allt þetta sem gert hefur verið, flottar og fínar tilraunir. En þetta atriði sem ég geri hér að umtalsefni sem þessi ágæti maður, Helgi Pétursson, hefur lýst svo faglega fyrir mér er auðvitað atriði sem ber að skoða líka og hafa í huga vegna þess að alla þessa þætti þurfum við að skoða.

Ég segi þetta líka, virðulegi forseti, í því samhengi að ég hef farið á nokkuð marga fundi og sýningar þar sem er verið að tala um hina umhverfisvænu bíla og allt það sem á að vera í framtíðinni, sem er hið besta mál, og þá finnst mér það enn þá vera þannig að það fer dálítið eftir því við hvern ég er að tala og hvaðan þeir koma, úr hvaða fyrirtækjarekstri eða úr hvaða geira, sem menn útlista hver verði framtíðarorkugjafinn í bílum í framtíðinni. Mér finnst það ákaflega merkilegt að einhvern veginn finnst mér flestir tala fyrir því að það verði einhvers konar eldsneytishreyfill, bensín eða dísill en rafmagn er það sem verður ofan á þar sem menn hreinlega stinga bílnum í samband að kvöldi og þegar næturtaxtinn tekur við hjá viðkomandi orkuveitu þá fara batteríin að hlaðast upp fyrir morgundaginn. Það skyldi þó ekki vera að þessi spantækni sem þeir eru að þróa og nota í strætisvagnakerfinu í Tórínó og eru komnir með 35 bíla sé eitthvað sem við eigum að skoða líka vegna þess að kostnaðurinn yrði minni?

Virðulegi forseti. Í ályktunum í skýrslu sem heitir Léttlestir á höfuðborgarsvæðinu sem gerð var fyrir borgarverkfræðinginn í Reykjavík, dagsett í febrúar 2004, eru í lok hennar dregnir fram ýmsir hlutir sem gera það að verkum, eins og hv. þingmaður ræddi líka um, að kostnaðurinn er við þær er svo mikill og rekstrarkostnaðurinn hár og tekjurnar litlar að telja verður þann kost óhagkvæman, a.m.k. enn þá.

Virðulegi forseti. Það má enginn skilja orð mín þannig að ég sé að segja að þessi þingsályktunartillaga eigi ekki rétt á sér. Hún er hið besta mál eins og ég sagði í upphafi máls míns og fer sína leið til samgöngunefndar og ef samgöngunefnd kemst að þeirri skoðun að við eigum að láta skoða þetta betur þá gerum við það auðvitað en það verður þá gert með hliðsjón af þeim skýrslum sem hafa verið skrifaðar og það verður skoðað hvaða nýjungar hafa orðið og hvað hefur breyst.

Virðulegi forseti. Það mætti margt ræða um tillöguna sem hér er sett fram sem er, eins og ég hef áður sagt, ágæt og hreyfir við þessu máli og það er sjálfsagður hlutur. Það er mikil alvara í því að efla almenningssamgöngur og við þurfum að taka á í því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og þess vegna spyr ég: Hvað er best í þeim efnum? Sitt sýnist hverjum en sú tillaga sem hér er flutt fer til umfjöllunar í samgöngunefnd og er sjálfsagt að skoða hana betur. En ég segi líka stundum vegna þess að mér finnst gaman að halda utan um peningana, að það væri kannski eðlilegt að stærsta sveitarfélagið eða stærstu sveitarfélögin á landinu sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu, sem mundu þá falla undir „léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu“ mundu taka þátt í verkefninu og kostnaði við það. En það verður skoðað síðar og kannski mun hv. 1. flutningsmaður tillögunnar koma með slíka tillögu frá samgöngunefnd til ráðuneytisins en við skulum sjá hvernig þessu reiðir af og ég trúi því að í samgöngunefnd verði frjó og góð umræða um tillöguna.