Fangaflug Bandaríkjamanna

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 10:37:43 (5165)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

fangaflug Bandaríkjamanna.

[10:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þessi svör valda mér vonbrigðum. Mér finnst þetta vera sami undanflæmingurinn og í raun og veru hefur einkennt viðbrögð danskra stjórnvalda og þau eru nú loks að fá í kollinn, vegna þess að að lokum verður að auðvitað þannig að þessi mál fara í rækilega rannsókn þar og Grænlendingar hafa þegar ákveðið að rannsaka þessi mál sjálfstætt á sínum vegum.

Sú skrá sem utanríkisráðuneytið tók saman var góðra gjalda verð en var í öllum aðalatriðum búin að birtast áður í fjölmiðlum og ég hafði öll þau flugnúmer undir höndum og reyndar fleiri. Ég hef fengið fyrirspurnir frá dönskum þingmönnum á undanförnum dögum og þær fyrirspurnir bera það með sér að í Danmörku virðast menn halda að það hafi verið gert miklu meira á Íslandi en raun ber vitni. Það kemur mönnum á óvart þegar ég hef sent til baka gögn og upplýst um það hvað hefur verið gert hér og hvað ekki gert. Til dæmis kemur fullyrðing í þá veru að það sé vart hægt að rannsaka þessa hluti neitt eftir á mönnum mjög á óvart. Vegna þess að ég tel að rannsóknir annars staðar, í Evrópuráðinu, rannsóknir sem eru í gangi í Svíþjóð, Þýskalandi og víðar, sýni hið gagnstæða sem og rannsóknarvinna blaðamannanna sem sýndi að það er hægt að rekja þessa hluti og grafast fyrir um þá. Ég hef reyndar bent hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) á þá einföldu leið að kanna þann kost sem flugvélarnar tóku um boð hér á flugvöllum og hvort ekki megi lesa dálítið út úr því. Svo eru náttúrlega yfirlýsingar mismunandi ráðherra mjög misvísandi í þessum efnum og hæstv. dómsmálaráðherra kannast ekki við að nein breyting hafi orðið á eftirliti með þessu flugi.