Styrkur til lýðheilsurannsókna

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 10:47:27 (5171)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

styrkur til lýðheilsurannsókna.

[10:47]
Hlusta

Sigfús Karlsson (F):

Herra forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. heilbrigðisráðherra og ræða við hann um þá ákvörðun Lýðheilsustöðvar að hætta stuðningi við tvö af viðamestu rannsóknarverkefnum samtímans á sviði lýðheilsumála en þeim verkefnum hefur báðum verið stýrt frá Háskólanum á Akureyri.

Hjá Lýðheilsustöð er borið við fjárskorti og bent á að sækja megi um fjárstuðning við verkefnin hjá Forvarnasjóði sem veitt er úr á hverju ári. Verkefnin eru hins vegar þess eðlis að nauðsynlegt er að fjármögnun þeirra sé tryggð nokkur ár fram í tímann og útilokað er að reka þessi verkefni af nokkru viti með því að sækja um styrk til eins árs í senn.

Um er að ræða tvö viðamikil verkefni sem Háskólinn á Akureyri tekur þátt í fyrir Íslands hönd og hefur beinn kostnaður við framkvæmd þeirra verið greiddur af Lýðheilsustöð. Verkefnin eru European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs, skammstafað ESPAD og Health Behaviours in School-Aged Children, skammstafað HBSC. Taka rúmlega 40 lönd þátt í þeim báðum, annars vegar í Evrópu og hins vegar víðs vegar um heim. Annað verkefnið hefur staðið frá árinu 1993.

Það eru umtalsverð samlegðaráhrif af því að vinna báðar rannsóknirnar á sama stað og var áætlað að framlag Lýðheilsustöðvar vegna beggja verkefnanna yrði um 2,8 millj. kr. á ári næstu fjögur ár eða samtals 11,2 millj. kr. á samningstímanum. Áætlað var að framlengja samningstímann nú um áramótin, annars vegar til vors 2010 og hins vegar til vors 2011.

Lýðheilsustöð hefur tilkynnt Háskólanum á Akureyri að samningurinn verður ekki endurnýjaður og því munu þessar rannsóknir að öllu óbreyttu leggjast niður af hálfu Háskólans á Akureyri á næstu vikum. Fyrirspurn mín er því þessi til hæstv. heilbrigðisráðherra: Er hægt að fá þessari ákvörðun Lýðheilsustöðvar snúið við með einhverjum hætti eða væri möguleiki á því að heilbrigðisráðuneytið gæti tryggt fjármagn til verkefnanna til að minnsta kosti næstu fjögurra ára?