Vandi landbúnaðarins og staða lífeyrissjóða

Mánudaginn 03. mars 2008, kl. 15:14:54 (5317)


135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

vandi landbúnaðarins og staða lífeyrissjóða.

[15:14]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hvað varðar landbúnaðinn og þann vanda sem að honum steðjar þá undrast ég auðvitað ummæli hæstv. forsætisráðherra „að þurfa að hugleiða“. Hér þarf auðvitað snögg viðbrögð, bæði til þess að verja þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið og halda niðri verðbólgu og ekki síður að skapa hinum framsækna landbúnaði, sem hefur verið að byggja sig upp, vissu um að á þessar miklu hækkanir, eins og á áburði upp í 80% og fóðri yfir 50% og ýmislegt annað sem mun steðja að, verði höggvið og staða greinarinnar verði ljós.

Síðan er það auðvitað rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir um lífeyrissjóðakerfið að það hefur verið vel rekið og er sterkt en fjárfestingarstefna þess skiptir máli. Þeir hafa farið með auðmönnunum á vettvang þjóðanna til að sækja sér árangur og hafa vonandi gert það og eiga þar ekki mikið í töpum en það getur líka verið (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að eiga samráð við lífeyrissjóðina til að takast á við hin stóru verkefni hér heima í ríkari mæli.