135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:48]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert vegna þess að nú er það ekki starfsfólk Landsvirkjunar sem er ómögulegt, það eru hönnuðirnir. Hönnuðir gjaldfella sín eigin verk með því að hanna þau og meta síðan, segir hv. þingmaður. Ég vísa aftur í fréttatilkynningu Landsvirkjunar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við áhættumatið var leitað upplýsinga frá fjölmörgum aðilum, vísindamönnum, hönnuðum og öðrum sem gerst til þekkja.“

Þarna sýnist mér að hönnuðirnir hafi fengið fleiri í lið með sér. Ekki geta þeir allir hafa komið að þessu frá upphafi. Mér finnst því málflutningur þingmannsins ekki vera sérstaklega trúverðugur.

Ég tek það fram að mér finnst mjög ósmekklegt að verið sé að gefa í skyn með þessum hætti á hinu háa Alþingi að fólk standi ekki undir þeim væntingum sem gerðar eru til þess. Ég veit ekki hvað fólki gengur til. Það er andstaða við framkvæmdirnar en það er önnur saga og við erum tilbúin til að taka þá umræðu hvenær sem er, en mér finnst ekki rétt að þetta starfsfólk liggi undir svona ámælum eins og þarna koma fram.