135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er almennt talið heppilegra fyrir umræðu af þessu tagi að þeir sem taka þátt í henni hafi kunnáttu í því efni sem til umræðu er. Það hefur hv. þingmaður ekki og hefði þess vegna kannski átt að undirbúa sig betur áður en hún tók þátt í umræðunni.

Ég býst við að verða leiðréttur með það en ég hygg að það sé þannig að áhættumat það sem hér er um að ræða sé ekki liður í mati á umhverfisáhrifum. Ég man ekki eftir að þar sé beðið um sérstakt áhættumat. Það er hugsanlega liður í einhverju öðru ferli sem stendur á bak við mannvirkjagerð en ég held að ekki sé um það að ræða. Ég hygg að hér sé um að ræða frumkvæði Landsvirkjunar, hugsanlega að beiðni Flóahrepps eða einhvers af sveitarfélögunum eða framlag Landsvirkjunar til umræðu sem hefur orðið allmikil, og ég skal ekki dæma um hér efnislega, um áhættuna af virkjunum á því jarðeldasvæði sem þarna er.

Þegar um það er að ræða þá þarf ekki að efast um það að tæknimenn Landsvirkjunar eða fagmenn sem hafa verið fengnir til verksins séu af ásettu ráði að svindla. Eða út af fyrir sig að Landsvirkjun sé að hagræða niðurstöðum þó að það fyrirtæki sé reyndar frægt fyrir slík vinnubrögð, því miður, í skjóli hins pólitíska valds sem þar hefur ráðið og ræður enn.

En fyrir umræðuna er ákaflega hollt að áhættumat af þessu tagi, plagg af þessu tagi, ferill og vinna af þessu tagi fái dóm, fái mat einhvers konar dómstóls, gagnrýnanda, Hæstaréttar, eftirlitsstofnunar, Skipulagsstofnunar. Að því leyti tek ég undir þá þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi, þó að mig bresti kunnáttu til þess að taka afstöðu til einstakra atriða í henni, og skora á hv. þm. Ragnheiði Elínu (Forseti hringir.) Árnadóttur að kynna sér málin öllu betur áður en hún kemur hér upp í stólinn næst með athugasemdir af því tagi sem hér voru (Forseti hringir.) fram fluttar og voru ekki málefnalegar athugasemdir.