Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð

Miðvikudaginn 05. mars 2008, kl. 14:22:46 (5465)


135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð.

443. mál
[14:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að þessi skýrslugerð hafi verið mjög gagnleg, sérstaklega vegna þess að hún greinir að tvær meginhugmyndir í þessu efni. Annars vegar það að hér sé hægt, með því að búa til skilvirkt skattkerfi, einfalt regluverk og góðar aðstæður fyrir fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki, að lyfta veg atvinnugreinarinnar á Íslandi. Hin er frá hugmyndafræðingum yst til hægri á Íslandi, um það að við ættum að gera landið að einhvers konar skattaparadís á borð við þær sem almennar eru í Karíbahafinu og á slíkum slóðum, en það hefði orðið til þess að lækka mjög og rýra gengi Íslands á alþjóðavettvangi — við sjáum hvernig Liechtensteinmönnum gengur núna með sína leynd og sína skattaparadís.

Það vekur hins vegar eftirtekt að þessi umræða fer fram á eftir þeirri snubbóttu umræðu sem áðan fór fram um gjaldmiðilsmál, (Forseti hringir.) en mér kemur ekki til hugar að alþjóðleg fjármálamiðstöð verði að veruleika á Íslandi með íslensku krónuna að (Forseti hringir.) mótor.