Einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík

Miðvikudaginn 05. mars 2008, kl. 16:05:02 (5506)


135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[16:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Kannast einhver við þessa rullu? Kannast einhver við: „ekki nægjanlegt samráð, ekki nógu langur aðdragandi, þetta hefur ekki verið gert rétt, það átti ekki að gera þetta svona heldur hinsegin“? Þetta er alltaf sama gamla rullan sem kemur úr þessum herbúðum, ekkert efnisinnihald.

Hversu oft þarf ég að taka fram að strax í upphafi þessa ferils var haft samráð við kennara og nemendur og haldinn upplýsingafundur með þeim? Hversu oft þarf ég að segja að haldnir hafa verið margir fundir með kennurum þar sem spurningum hefur verið beint til ráðuneytisins og þeim svarað eftir bestu getu? Skólameistari Iðnskólans í Reykjavík hafði reglubundið samráð við skólanefnd og upplýsti kennara. Það hefur verið mikið samráð í þessu ferli og upplýsingastreymi en prinsippið er: Eru menn sammála þessu rekstrarformi eða ekki? Það er sama hversu hlutirnir verða vel gerðir, Vinstri grænir munu alltaf verða á móti. Þetta er höggvið í stein: Vinstri grænir munu segja nei. Þeir munu ekki segja pass, þeir munu segja nei við öllum breytingum á rekstrarformi. Þeir munu fela sig á bak við þetta: Það er ekki nægilega mikið samráð, þetta er ekki nægilega vel undirbúið. Þetta er alltaf það sama.

Aðalatriðið er að við erum að skapa hér tækifæri, mun meiri tækifæri en áður hafa verið, með því að skerpa tengslin á milli skóla, Iðnskólans og verkmenntaskóla, og tengsl þeirra við atvinnulífið. Eftir því hefur verið kallað og við erum að bregðast við því. Við erum að skoða hlutina í því samhengi sem allir þingmenn hafa kallað eftir, við erum að skoða þá í heildarsamhengi. Við leggjum annars vegar fram merkilegt frumvarp og eitt af því sem hefur verið haft að leiðarljósi í því er að efla iðn- og starfsnám og við ætlum okkur að gera það. Samhliða því komum við á fót öflugum skóla, enn öflugri skóla sem byggir á ákveðinni auðlind sem Iðnskólinn í Reykjavík hefur byggt á, m.a. á auðlindinni sem felst í þekkingu kennara. Við erum að efla Iðnskólann í Reykjavík og við erum að efla Fjöltækniskólann með þessari sameiningu, við treystum og trúum á það starfslið sem þar er.

Með þessum aðgerðum samhliða — ég vona að hv. þingmenn Vinstri grænna ljái máls á framhaldsskólafrumvarpinu nú í vor — er ég sannfærð um að við munum efla iðn- og starfsnám til lengri tíma. (Forseti hringir.) Ég bið því hv. þingmenn í Vinstri grænum um að vera framsýna.