Embætti umboðsmanns aldraðra

Miðvikudaginn 12. mars 2008, kl. 14:33:38 (5649)


135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

embætti umboðsmanns aldraðra.

396. mál
[14:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra veitt svör sem og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Það virðist vera orðin þó nokkur stefnubreyting hjá Samfylkingunni í málefnum þegar kemur að umboðsmanni aldraðra því að þetta var eitt af höfuðstefnumálum flokksins í stefnumálum síðustu kosninga og alger breyting sem hefur átt sér stað á einungis níu mánuðum. Eins og heyra mátti á málflutningi hv. þm. Ástu Möller er greinilega takmarkaður áhugi innan Sjálfstæðisflokksins á því að stofna þetta embætti.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem segja: Við skulum setja þessi mál í samhengi. Ég ætla að benda á að undir forustu okkar framsóknarmanna var stofnað embætti umboðsmanns neytenda. Sá umboðsmaður hefur unnið mjög gott starf. Hann hefur komið með mjög margar og þarfar ábendingar handa stjórnvöldum um úrbætur er snerta neytendamál. Eru þá hv. þingmenn að tala um að leggja eigi niður starf umboðsmanns neytenda ef menn ætla að fylgja þessu prinsippi almennt eftir? Nú er það svo að neytendur, rétt eins og eldri borgarar, hafa sín samtök og sína talsmenn sem eru Neytendasamtökin sem eru mjög öflug samtök. Ég lýsi því yfir miklum vonbrigðum með það að mér heyrist að það verði því miður ekkert af því sem ákveðnir stjórnmálaflokkar lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga, að embætti umboðsmanns aldraðra verði sett á fót. Ég vil benda á það að í nýlegu frumvarpi sem við höfum haft með höndum í félags- og tryggingamálanefnd þingsins er verið að bæta hag aldraðra um 3,4 milljarða sem er hið besta mál. Það er verið að bæta kjör margra hópa. Einn hópur er þó útundan í því. Það er sá hópur aldraðra sem hefur engar lífeyristekjur en heldur ekki neinn maka þannig að engar tekjur koma þaðan heldur. Það er verið að setja 3,4 milljarða í málaflokkinn en ekki tekið á kjörum þeirra (Forseti hringir.) sem hvað verst standa í þessum hópum, (Forseti hringir.) því miður. Ég er alveg viss um að embætti umboðsmanns aldraðra hefði komið með mjög kröftuga umsögn hvað varðar þennan hóp (Forseti hringir.) sem þarfnast svo sárlega kjarabóta.