Hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 12. mars 2008, kl. 14:48:33 (5654)


135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:48]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil beina því til hæstv. heilbrigðisráðherra að hann virði rétt okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fleiri til að nota orðið væðingu sem hugtak yfir mismunandi einkarekstur. Það má ekki kalla það einkavæðingu, segir ráðherra, á sama tíma og verið er að setja umbúðir utan um einkarekstur sem er með mismunandi hætti.

Við tökum allan þennan mismunandi rekstur undir eitt hugtak og köllum hann einkavæðingu rétt eins og hugtakið iðnvæðing nær yfir ákveðna þróun. Við köllum þessi mismunandi rekstrarform (Forseti hringir.) einkavæðingu. Við skiljum vel viðkvæmni hæstv. ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins fyrir þeirri orðanotkun en við notum orðið á þennan veg.