Hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 12. mars 2008, kl. 14:49:55 (5655)


135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er dálítið athyglisvert þegar formaður heilbrigðisnefndar kemur hér og spyr samflokksmann sinn, hæstv. heilbrigðisráðherra, út í mál sem þessi. En tilgangurinn er sá að koma því á framfæri að breytingar eru í farvatninu og þegar hafnar af hálfu nýrra stjórnvalda í heilbrigðismálum. Breytingarnar eru þær að einkavæða heilbrigðisþjónustuna meira og minna og eigum við eftir að sjá meira af því á næstunni.

En þetta orð, einkavæðing, á algjörlega við í þessu sambandi. Þetta er einkavæðing þó einkavæðing sé líka til annars konar og það á við þegar verið er að selja ríkisfyrirtæki. En þetta er engu að síður einkavæðing. Að vitna í kannanir sem hafa farið fram sí og æ, eins og hv. fyrirspyrjandi gerir hér — kannanir sem ekki er hægt að fullyrða að séu marktækar, þær hafa kannski ekki verið það faglegar að ljóst sé að verið sé að bera saman sams konar þjónustu. (Forseti hringir.)

En ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að grundvallarbreytingar eru í farvatninu í heilbrigðiskerfinu. Það er augljóst.