Gjaldtaka tannlækna

Miðvikudaginn 12. mars 2008, kl. 15:33:16 (5676)


135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:33]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ljóst af svörum hæstv. ráðherra og af tannheilsu Íslendinga, og þá sérstaklega barna, að úrbóta er þörf. Á það höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bent mörg undanfarin ár því að framlög til tannlækninga hafa farið lækkandi. Það þýðir ekki að vísa á lögmál markaðarins hvað tannlækningar varðar ekki frekar en gigtarlækningar eða aðrar lækningar. Fólk velur sér tannlækni, fólk velur sér lækni, og heldur tryggð við hann. Það gengur ekki á milli lækna og óskar eftir verðtilboði. Um þessa þjónustu gilda önnur lögmál en lögmál markaðarins. Hið opinbera og Tryggingastofnun, hæstv. ráðherra, verða að koma að málum og það strax með skýrari reglur og með meiri stuðning þannig að ekki fari að verða sjáanlegur stéttamunur hér á landi á tannheilsu fólks.