Kræklingarækt

Miðvikudaginn 12. mars 2008, kl. 16:04:32 (5692)


135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kræklingarækt.

382. mál
[16:04]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka jákvæðar viðtökur við þessu máli. Ég ítreka að ég held að um geti verið að ræða áhugaverða möguleika. Við skulum hins vegar ekki fá glýju í augun. Þetta er ekki einfalt mál og mörg vandamál sem hafa komið upp og eiga eftir að koma upp. Stóra málið er hins vegar með hvaða hætti hið opinbera getur skapað eins góðan ramma utan um atvinnugreinina og mögulegt er.

Ég held að miklu máli skipti að menn reyni líka að læra af reynslunni. Ekki bara af eigin reynslu heldur líka af reynslu annarra þjóða. Mér hefur fundist skorta mikið á það á undanförnum árum. Maður verður var við það þegar maður ræðir við kræklingaræktendur að þeir hafa flestir lent í svipuðum vandamálum og sambærilegum, sem ef til vill hefði verið hægt að komast hjá með því að afla sér upplýsinga um reynslu annarra.

Kanadamenn hafa sannarlega náð langt og það á við um aðrar þjóðir líka. En menn hafa talið að aðstæður í Kanada og aðstæðurnar hér á landi séu á margan hátt sambærilegar og skynsamlegast væri að reyna að nýta þá reynslu sem þar hefur fengist. Ég veit t.d. að þeir sem standa fyrir kræklingaræktinni í Eyjafirði hafa sótt sér þekkingu og reynslu til Kanada og jafnvel fjármagn líka. Þeir hafa verið reiðubúnir til að deila þessum upplýsingum með öðrum sem hafa sýnt áhuga á kræklingarækt við landið.

Aðalatriðið er að við höfum sett af stað alvöruvinnu í þessum efnum, reynt að kortleggja þetta og gera okkur grein fyrir því með hvaða hætti sé hægt að skipa þessum málum þannig að árangur náist. Ég bind vonir við starf nefndarinnar og þær tillögur sem hún mun leggja fram.