135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:32]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á því að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, út í þá miklu yfirlýsingu sem hann gaf í gær um að hann hefði efasemdir um að skipta ætti upp tollinum og löggæslunni á Suðurnesjum. Það mál hefur vakið upp mjög mikinn óróa suður með sjó og þótt víðar væri leitað. Hv. þingmaður sagði, og er ég honum sammála um það, að þetta orkar mjög tvímælis, það er líklega afar rangt skref sem verið er að stíga. Að vísu sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að ef góð rök fylgdu yrði hann með opinn huga þannig að hann bakkaði aðeins, virðulegur forseti, í seinna svari sínu. En látum það nú vera.

Ég tel að vinnubrögðin hafi verið með ólíkindum í þessu máli. Það var tilkynnt á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra að breyta eigi þessum málum, splitta upp þessum embættum. Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra leyfi sér að tilkynna á heimasíðu að breyta eigi lögum. Það er alveg ljóst að það þarf að breyta lögum til að koma þessari breytingu í gegn. (Gripið fram í.) Ég býst varla við því að ríkisstjórnin springi á þessu máli þó að fulltrúi Samfylkingarinnar hafi lýst sig mikinn efasemdarmann. Ég vil athuga hvort innstæða sé fyrir þessari yfirlýsingu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar síðan í gær. Er innstæða fyrir þessari yfirlýsingu? Ætlar Samfylkingin að styðja lagabreytingar um að þessum embættum verði splittað upp, þ.e. að færa tollgæsluna undir fjármálaráðuneytið og halda löggæslunni undir dómsmálaráðuneytinu? Eða ætlar Samfylkingin að passa upp á að það verði ekki gert? Málið verður í höndum þingsins og það er brýnt að vita núna hvað Samfylkingin ætlar að gera.