135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Ögmundi Jónassyni, þar sem hann talar um að mikilvægt sé að þessi mál séu leidd til lykta í góðu samráði og án þess að uppi séu höfð stóryrði eða mjög digrar yfirlýsingar um þessi mál eins og nokkuð hefur borið á í opinberri umræðu.

Það er alveg ljóst að þau áform sem dómsmálaráðherra hefur gert grein fyrir að standi til af hálfu ríkisstjórnar ganga út á að færa stjórnsýslumál á Keflavíkurflugvelli í það horf sem stjórnsýsla þessara mála er almennt í í landinu. Það er í samræmi við þá stefnu sem var mörkuð eftir brottför varnarliðsins 2006 að afnema þær sérstöku kringumstæður eða sérstöku reglur sem giltu á Keflavíkurflugvelli um starfsemi þar og færa þær nær því sem gerist annars staðar í landinu. Þannig er staðreynd málsins að tollgæsla og löggæsla eru aðskildar í landinu þó að þessar stofnanir eigi auðvitað náið samstarf. Þær breytingar sem boðaðar hafa verið varðandi Keflavíkurflugvöll ganga einmitt út á að það verði skýrt að löggæslumál þar lúti forræði dómsmálaráðuneytisins eins og gerist almennt í landinu, að tollgæslumál lúti forræði fjármálaráðuneytisins eins og almennt gerist í landinu og flugöryggismál heyri undir samgönguráðuneytið eins og gerist annars staðar í landinu. Það útilokar hins vegar ekki, og ég vil undirstrika það sérstaklega, að það góða og nána samstarf sem hefur verið milli starfsmanna þessara mismunandi greina ríkisvaldsins haldi áfram og það er auðvitað mikilvægt. Það dregur enginn úr því að mikilvægt og gott starf hefur verið unnið á Keflavíkurflugvelli en ég held að breytingar af þessu tagi, að skýra stjórnsýslulega og rekstrarlega ábyrgð betur, hjálpi til við að ná utan um fjármuni og fjármunahald í þessari starfsemi en eins og fjárlaganefndarmenn og aðrir þingmenn margir þekkja hafa fjárheimildir þessa embættis ekki verið í samræmi við rekstrarútgjöld og það er sérstakt mál sem þarf að taka á.

(Forseti (ÁRJ): Ég bið þingmenn að halda tímamörk.)