135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:48]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum starfa um 200 manns sem finnst sem þeim góða árangri, sem náðst hefur í löggæslu og tollamálum frá sameiningu embættanna, sé stefnt í voða. En ef málið er skoðað nánar spyr maður sig hvort ekki sé eðlilegt að stjórnsýslan á Suðurnesjum sé með sama hætti og almennt gerist í landinu, þ.e. að færa ábyrgðina á tollgæslunni undir fjármálaráðuneytið, öryggis- og vopnaleitina til samgönguráðuneytisins og lögregluna til dómsmálaráðuneytisins.

Áhrif sameiningarinnar frá því fyrir einu og hálfu ári síðan eru samt sem áður til staðar. Lögreglan á Suðurnesjum verður enn rekin sameiginlega og tollgæslan einnig. Það er ekki verið að tala um það að færa þetta algjörlega til fyrra horfs. Fyrirkomulagið sem nú er viðhaft er arfur frá því að varnarliðið var á Suðurnesjum. Því er sjálfsagt að endurskoða fyrirkomulagið og færa í annað horf ef það gengur ekki upp eins og ætlast er til. Allt samstarf þessara aðila þótt yfirstjórnin sé mismunandi verður áfram á faglegu nótunum.

Hins vegar skil ég áhyggjur starfsmanna að mörgu leyti. Fram hefur farið gott og farsælt starf hjá lögreglustjóraembættinu undir öruggri stjórn lögreglustjórans. Það er almennt álit manna að lögreglustjórinn hafi staðið sig vel í starfi og hafi gert góða hluti. Ég vona sannarlega að löggæslan á Suðurnesjum njóti (Forseti hringir.) krafta hans, þótt síðar verði. (Gripið fram í.) En það er mjög mikilvægt að sátt (Forseti hringir.) og friður ríki um löggæsluna á Suðurnesjum. Þess vegna vona ég að þetta mál fái farsæla lausn.