135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Hlusta

Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í dag, 1. apríl, er dagurinn sem öryrkjum og ellilífeyrisþegum verður greidd 4% lífeyrishækkun almannatrygginga.

Öryrkjabandalagið, Landssamband eldri borgara og ASÍ sendu um helgina frá sér yfirlýsingu þar sem þessari ákvörðun var mótmælt harðlega á þeirri forsendu að þessar hækkanir væru allt of litlar og ekki í anda nýgerðra kjarasamninga. Hækkun elli- og örorkulífeyris um einungis 4–5 þús. kr. í kjölfar nýgerðra kjarasamninga kristallar þá sorglegu staðreynd að enn og aftur sitja þessir hópar eftir. Þeir hópar sem minnst hafa. 18 þús. kr. hækkun lægstu launa á vinnumarkaði getur engan veginn samræmst 4–5 þús. kr. hækkun á bótum almannatrygginga. Við erum að tala um 4–5 þús. kr. til þeirra sem hafa einungis bætur frá almannatryggingum.

Við vinstri græn höfum verulegar áhyggjur af afkomu hinna lægst launuðu og síðast í gær sýndu fréttir Stöðvar 2 fram á nærri 20% hækkun á matarkörfu á einu ári, þegar búið er að taka tillit til virðisaukaskattslækkana. Þær hækkanir sem nú eru að koma til duga ekki til að halda í horfinu. Ríkisstjórnin segir þetta 7,4% hækkun á lífeyri almannatrygginga frá því í desember. Inni í þeirri tölu er hækkun um áramót sem nemur 3,3%. Sú hækkun er samkvæmt lögbundnum hækkunum til að halda í horfinu og felur ekki í sér kjarabætur.

Frú forseti. Eigum við ekki að líta í eigin barm? Viljum við í alvöru talað skilja þennan hóp eftir? Finnst okkur það í alvöru talað sanngjarnt? Við vinstri græn svörum þessari spurningu neitandi. Það er engan veginn sanngjarnt. Engan veginn. Ég spyr því hv. (Forseti hringir.) formann félagsmálanefndar: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að koma til móts við þennan hóp og leiðrétta kjör hans á sanngjarnan hátt?