Vaðlaheiðargöng

Miðvikudaginn 02. apríl 2008, kl. 15:31:54 (5934)


135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Vaðlaheiðargöng.

369. mál
[15:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um málefni Vaðlaheiðarganga. Reyndar er það svo að frá því að þessi fyrirspurn var fyrst lögð fram hefur ýmislegt borið til tíðinda hvað þá framkvæmd varðar. Hún hefur verið boðin út síðan þessi fyrirspurn var lögð fram. Þær spurningar sem ég lagði fyrir ráðherra á sínum tíma voru:

Í fyrsta lagi: Hvað líður undirbúningi Vaðlaheiðarganga?

Í öðru lagi: Hvenær má búast við að framkvæmdir verði boðnar út?

Í þriðja lagi: Er fyrirhugað að umferð um göngin verði gjaldfrjáls?

Nú liggur það fyrir hvað fyrstu tvo liðina varðar að búið að bjóða framkvæmdina út og segja frá því að hefja á framkvæmdir vorið 2009, eins og ég hef skilið þetta. (Gripið fram í.) Ég fagna því virkilega eins og allir Norðlendingar og Eyfirðingar.

Hins vegar vefst þriðji liðurinn fyrir mér í ljósi þess — um leið og ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með það að vera ráðherra samgöngumála hér í landinu — að það var eitt af höfuðstefnumálum Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, eins og hæstv. forseti kannast nú líklegast við, að þessi framkvæmd ætti að vera boðin út strax á árinu 2007. Henni yrði trúlega lokið um áramótin 2009–2010 eins og hæstv. ráðherra skrifaði um í aðdraganda kosninga. Hann boðaði að ekkert veggjald yrði tekið vegna umferðar um þessi göng.

Eins og allir muna sem búa á Akureyri og á Norðurlandi eystra var þetta eitt höfuðstefnumál Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninganna. Stórir borðar voru settir upp þar sem í stríðsmálningarlitum stóð: Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax! Þetta man fólk náttúrlega og því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra um það. Ég tel að í ljósi yfirlýsinga hans að það sé eiginlega útséð með að þau verði gjaldfrjáls eins og hæstv. ráðherra lofaði. Hæstv. ráðherra komst síðan í þá aðstöðu að sjá um málefni samgöngumála en hefur hann ekki reynt í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn að koma því þannig í kring að hann geti staðið við þau loforð sem hann gaf í aðdraganda síðustu kosninga? Það verður náttúrlega að segjast alveg eins og er að þau fögru fyrirheit sem Samfylkingin hafði í málefnum þessarar ágætu framkvæmdar á sínum tíma hafa ekki staðist, í fyrsta lagi varðandi útboðið og verklokin og í öðru lagi varðandi veggjald á framkvæmdinni.

En að sjálfsögðu fögnum við framsóknarmenn því að búið sé að bjóða þessa framkvæmd út. Við höguðum málflutningi okkar þannig í aðdraganda síðustu kosninga að við gætum staðið við þau loforð sem við gáfum (Forseti hringir.) þá en því miður er því ekki til að dreifa í málflutningi Samfylkingarinnar.