Stúdentar frá Menntaskólanum Hraðbraut

Miðvikudaginn 09. apríl 2008, kl. 12:46:28 (6236)


135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

stúdentar frá Menntaskólanum Hraðbraut.

467. mál
[12:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Fyrir nokkrum árum var mikil umræða um styttingu náms til stúdentsprófs og þar fór hæstv. menntamálaráðherra framarlega í flokki í að reyna að stytta nám til stúdentsprófs. Því miður tókst það ekki vegna ýmissa aðstæðna, kannski vegna kjarasamninga, afstöðu verkalýðshreyfingar, kennara og annarra slíkra. Það er ljóst að í framhaldsskólunum eru um 20 þúsund nemendur og kostnaðurinn sem gert er ráð fyrir á næsta ári er um 17 milljarðar, þ.e. um 850 þús. kr. á hvern nemanda.

Það segir okkur að þegar skóli býður einhverjum nemanda í fjögurra ára nám til stúdentsprófs þá er hann í rauninni að bjóða honum aðstöðu upp á 2,8 millj. kr. sem nemandinn tekur. Nemandinn virðist geta hætt hvenær sem er að þiggja þetta mikla framboð sem kostar 2,8 milljónir og því veltir maður fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að meiri umræða væri um þennan kostnað.

Mér skilst að íslenskir framhaldsskólanemendur verði stúdentar elstir ef miðað er við nágrannalönd okkar, eða elstir til að verða stúdentar og þess vegna er þetta spurningin um hversu mikið kostar þetta þjóðfélagið. Þetta fólk kemur seinna inn á vinnumarkaðinn, starfsævin verður styttri en á móti kemur að mjög margir vinna í leyfum og með námi og öðlast þannig starfsreynslu. Undantekning frá þessu er Menntaskólinn Hraðbraut sem útskrifar nemendur eftir tvö ár sem er verulega mikið styttra en hinn almenni menntaskóli. Það næst væntanlega fram með eitthvað harðara námi en líka með því að nema á sumrin. Í Menntaskólanum Hraðbraut er miklu styttra sumarleyfi og önnur leyfi eru líka styttri.

Mig langar til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því hversu stórt hlutfall nemenda í Menntaskólanum Hraðbraut útskrifaðist 18 ára eða yngri með stúdentspróf árin 2005, 2006 og 2007, þ.e. þau ár sem skólinn hefur starfað.

Mér sýnist annað athyglisvert koma í ljós og það er hlutfall kvenna af stúdentum frá skólanum á þessum árum. Síðan er spurningin: Á hvaða aldri útskrifast nemendur skólans almennt með stúdentspróf og hvert hefur hlutfall kvenna verið?