Samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Miðvikudaginn 09. apríl 2008, kl. 15:48:22 (6301)


135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:48]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að hæstv. umhverfisráðherra og íslensk stjórnvöld sæki um og fái eins mikinn losunarkvóta í viðbót fyrir Ísland og mögulegt er. Það er einfaldlega skynsamlegt að eiga borð fyrir báru. Það þýðir vissulega ekki að eyða þurfi þeim sama kvóta strax. En það er vandræðalegt að staðan verði á þann veg að vilji menn beita sér í atvinnumálum verði hendur þeirra svo bundnar að lítið sem ekkert verði hægt að gera, og þetta væri ekki gegn umhverfissjónarmiðum.

Í fyrsta lagi höfum við Íslendingar nánast sérstöðu í heiminum hvað það varðar að 70% af orku okkar er endurnýjanleg. Það er í raun helsta framlag Íslendinga til umhverfismála í heiminum. Til samanburðar er takmark Evrópusambandsins í hlutfalli endurnýjanlegrar orku heil 20%.

Þetta hefur þegar unnið gegn okkur í skiptingu losunarkvóta sem lagður var á sínum tíma eftir stöðu mála, hve mikið þjóðirnar menguðu þá. Þannig hafa þjóðir eins og t.d. frændur okkar Norðmenn bætt stöðu sína með hitaveituvæðingu, það höfum við ekki gert af því að við vorum eiginlega búin að þessu þegar kökunni var skipt.

Eins og staðan er nú fara fjölmargar þjóðir eftir losunarkvótum en margar gera sem þeim sýnist. Flestar menga miklu meira en við með sömu starfsemi, nota fæstar endurnýjanlega orku og setja jafnvel lægri mengunarstaðla. Því er afar mikilvægt að sífellt meiri hluti iðnaðar í heiminum sé knúinn endurnýjanlegri orku. Það er ekki nóg að vera umhverfissinni í eigin garði, það verður að hugsa hnattrænt í því efni.

Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra og íslensk stjórnvöld til að berjast fyrir auknum losunarheimildum með kjafti og klóm. Þannig standa Íslendingar á eigin fótum ef þeir vilja beita sér í atvinnumálum og fara fyrir flokki þjóðanna í atvinnustarfsemi á umhverfisvænan hátt með endurnýjanlegri orku gegn hlýnun jarðar.