Fjárfesting erlendra aðila í sjávarútvegi

Fimmtudaginn 10. apríl 2008, kl. 10:47:12 (6321)


135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárfesting erlendra aðila í sjávarútvegi.

[10:47]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afstöðu hans til fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Um það gilda lög frá 1991 sem sett voru í marsmánuði það ár og kveða á um það að einungis íslenskum ríkisborgurum og öðrum íslenskum aðilum eða íslenskum lögaðilum, sem eru að öllu leyti í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði, sé heimilt að stunda fiskveiðar og fiskvinnslu hér á landi.

Á þeim tíma sem löggjöfin var að fara í gegnum Alþingi voru sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu en studdu engu að síður málið þó með þeirri breytingu sem þeir lögðu til, að opnað yrði fyrir fjárfestingu erlendra aðila í tilteknum greinum fiskvinnslu.

Nú hefur ríkisstjórnin sett á fót nefnd til þess að endurskoða lögin um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Mér þykir því ástæða til að inna eftir afstöðu hæstv. sjávarútvegsráðherra til lagaákvæða sem varða þessa atvinnugrein kannski ekki hvað síst í ljósi þess sem fram hefur komið hjá honum, að nauðsynlegt sé að taka upp reglur Evrópusambandsins varðandi innflutning á hráu kjöti og matvælaeftirlit — jafnvel þótt landbúnaðarmál falli ekki undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið — til að verja útflutningshagsmuni fiskvinnslunnar jafnvel þótt sjávarútvegskaflinn falli ekki undir löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið. Það vekur spurningar um hvort hæstv. ráðherra sé kominn á þá skoðun að nauðsynlegt kunni að vera að opna sjávarútveginn fyrir fjárfestingum erlendra aðila jafnvel þó að það sé ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.