Stefnumörkun í málefnum kvenfanga

Fimmtudaginn 10. apríl 2008, kl. 14:47:05 (6366)


135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

stefnumörkun í málefnum kvenfanga.

514. mál
[14:47]
Hlusta

Paul Nikolov (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel þessa ályktun löngu tímabæra. Hún fjallar um vaxandi vandamál sem nær lítilli eða engri athygli þó að fangelsismál almennt hefi fengið æ meiri athygli. Mér finnst sjálfsagt mál að kvenfangar afpláni refsingar sínar í sér kvennafangelsi sérstaklega með tilliti til þess, eins og komið hefur fram, að konur og karlar eru með ólíkar þarfir, það vitum við öll. Því má líka bæta við að á meðan ég er þess fullviss að fangelsismálastjóri og fangelsismálayfirvöld gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi þessara kvenna þá hlýtur að vera gríðarlega andlega erfitt að vera ein af nokkrum kvenföngum í fangelsi sem er fullt af karlmönnum. Það sýnist mér eins konar óþörf og ósanngjörn aukarefsing.

Langflestar konur eru dæmdar fyrir glæpi sem hafa ekkert með ofbeldi að gera en þurfa samt að búa hjá ofbeldisfullum afbrotamönnum. Þegar konum og karlmönnum er blandað í sama fangelsi, sérstaklega þegar vísbendingar eru um að konum sem brjóta af sér sé að fjölga, þá er um að ræða tifandi tímasprengju.

Hærra hlutfall kvenna en karla í fangelsum á börn. Fjölskyldutengsl eru mikilvægt atriði í endurhæfingu, sem er í samræmi við fangelsisstefnu ríkisstjórnarinnar þannig að brýnt er að auðvelda þessi tengsl. Börnin eiga ekki skilið að vera stranglega aðskilin frá mæðrum sínum. Þannig aðskilnaður getur leitt til hegðunarvandamála í æsku sem kaldhæðnislega getur skapað þjóðhagsleg félagsleg vandamál í samfélaginu í framtíðinni.

Ef markmið ríkisstjórnarinnar í þessum málum er endurhæfing þá er brýnt að ríkisstjórnin tryggi betur öryggi þessara kvenna og verndi fjölskyldutengsl milli mæðra í fangelsi og barna þeirra. Ég skora á ríkisstjórnina að taka á þessu þverpólitíska máli og grípa til aðgerða.