Bjargráðasjóður

Mánudaginn 28. apríl 2008, kl. 16:48:53 (6916)


135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:48]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra að nokkrir þingmenn hefðu andmælt því að Bjargráðasjóður verði lagður niður. Ég þarf kannski aðeins að útskýra þetta betur fyrir hæstv. samgönguráðherra.

Miklir hagsmunir eru í húfi og algjör óvissa ríkir um það hvort tryggingafélög á almennum markaði muni tryggja þá hagsmuni sem eru í húfi fyrir bændur og fleiri sem hér eiga í hlut. Það er algjör óvissa um hvað komi í staðinn. Ég saknaði þess svolítið að fá ekki skýrari svör um það atriði. Ég tel mjög eðlilegt í ljósi þeirrar óvissu að leggja til að Bjargráðasjóði verði breytt í stað þess að leggja hann niður.

Hæstv. samgönguráðherra vísaði einnig til þess að málið hefði kannski hafist hjá ráðherrum Framsóknarflokksins. Í mínum huga er þetta ekkert annað en útúrsnúningur. Það stendur hérna efst á blaðsíðu 2 að það var samþykkt í stjórn Bjargráðasjóðs að lagt yrði til að unnið yrði að tillögum um breytingar á starfsemi og rekstri sjóðsins. Þetta eru tillögur um breytingar á rekstri. Ekki er lagt til að hann verði lagður niður. Maður hefur það stundum á tilfinningunni að ef það er eitthvert óþægilegt mál hjá ráðherrum Samfylkingarinnar þá vísa þeir alltaf til þess að ferlið hafi hafist hjá ráðherrum Framsóknarflokksins.

Varðandi samráðið við Bændasamtökin vil ég aðeins koma inn á það sem hæstv. samgönguráðherra sagði og fullyrti að það hefði verið haft samráð. Það er komið fram bréf sem Bændasamtökin rita þar sem þau segja að þau hafi haft af því spurnir að samgönguráðherra hafi látið vinna frumvarpið til laga um að Bjargráðasjóður (Forseti hringir.) verði lagður niður og lýsa svo undrun sinni á (Forseti hringir.) að náið samstarf skuli ekki hafa verið haft við samtökin.