Kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest

Miðvikudaginn 30. apríl 2008, kl. 14:32:16 (7071)


135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:32]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Flestum spurningum hv. þingmanns á þskj. 877 var svarað með fréttatilkynningu sem gefin var út í forsætisráðuneytinu 8. apríl sl. en mér er ljúft að endurflytja þær upplýsingar.

Kostnaðurinn við flugið var 4,2 millj. kr. Það var sá kostnaður sem eigandi vélarinnar bauð þetta flug á og þar mun hafa verið um að ræða afslátt en ég hef ekki upplýsingar um hvað ferðin hefði kostað án afsláttar.

Það var jafnframt liður í samkomulagi milli ráðuneytisins og flugrekandans að þar sem um kynningarafslátt væri að ræða yrði kostnaður ekki gefinn upp, en það er ljóst að ríkið getur ekki fallist á slíka skilmála og flugrekandinn gerði sér grein fyrir því eftir á og féllst á að þessar upplýsingar yrðu veittar. Þess vegna liggur það fyrir hvað þetta flug kostaði.

Ástæðan fyrir því að þessi leið var valin var sú að með því var hægt að spara tíma og fyrirhöfn og það kom á daginn að kostnaðarauki var það lítill að okkar dómi að okkur þótti það réttlætanlegt. Þegar öll kurl voru komin til grafar, eftir því hvernig það er reiknað, segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins að kostnaðaraukinn, miðað við að farið hefði verið með áætlunarflugi, hafi verið um 200 þús. kr. sem skiptist jafnt á milli forsætis- og utanríkisráðuneytisins eins og annar kostnaður af þessari ferð.

Hér er spurt:

„Með hvaða hætti var allra leiða leitað við að finna ódýrasta áætlunarflug og halda kostnaði við ferðina niðri?“

Það er að sjálfsögðu alltaf gert en í ferðum sem þessum er ekki reynt að leita fargjalda þar sem miklar skuldbindingar eru vegna þess að það kann að þurfa að breyta ferðum á síðustu stundu og það er oft gert. Í þessari ferð hættu tveir menn við að fara á síðustu stundu vegna annarra starfa og hefðum við setið uppi með þann kostnað ef slíkir farmiðar hefðu verið keyptir. Ég tel því að þetta hafi verið skynsamleg ráðstöfun, hún er reyndar algjör undantekning, það er algjör undantekning að þessi leið sé farin til að koma fólki milli staða. En það hefði verið flókið mál, það var búið að panta fargjald í gegnum London og síðan átti að fljúga frá flugstöð nr. 5, þessari nýju þar sem allt hefur verið í vandræðum — það var líka visst atriði í þessu að losna við áhættuna af því að lenda í því klandri sem þar var og byrjaði daginn áður, þ.e. 1. apríl. Við styttum því ferðina um einn dag, fórum 2. apríl og komum heim þann 4. eins og hv. þingmaður lét getið.

Ég hef svarað þessu með upplýsingar varðandi þetta mál. Segja má að ákveðin mistök hafi verið gerð í upphafi en þau hafa verið leiðrétt. Auðvitað er kostnaður við ferðir ráðamanna landsins ekki leyndarmál, slíkar upplýsingar liggja ævinlega fyrir.

Varðandi umhverfisþáttinn í þessu er það alveg rétt hjá þingmanninum að hann var ekki reiknaður út sérstaklega en forsætisráðuneytið hefur gerst aðili að Kolviðarverkefninu svokallaða og allar ferðir á þess vegum eru „afkolaðar“ eins og það heitir.