Jarðskaut

Miðvikudaginn 07. maí 2008, kl. 12:02:38 (7151)


135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

jarðskaut.

504. mál
[12:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í vestrænum nútímasamfélögum söfnum við að okkur tækjum og tólum sem nota sífellt meiri raforku. Þessari tæknivæðingu heimila og fyrirtækja fylgir rafmengun og útgeislun rafsegulbylgna frá raflagnakerfum mannvirkja. Miklu skiptir því að frágangur rafkerfa sé með þeim hætti að sem minnst rafmengun verði eftir í umhverfi okkar. Rafmengun sést ekki með berum augum en auðvelt er að mæla hana með réttum mælitækjum. Fólk gengur þó ekki í það að láta mæla hjá sér rafmengun upp úr þurru. Það er helst ef ljósaperurnar eru að farnar að springa í óeðlilega miklum mæli, raftæki ganga ekki eðlilega, tölvurnar frjósa svo oft að það er orðið pirrandi, að menn fara að skoða málin.

Stundum eru það veikindi sem ekki verða útskýrð með öðrum hætti en með rafóþoli sem verða til þess að fólk kallar á sérfræðinga til að mæla hjá sér rafmengun. Vandamálin eru þó oftast tengd jarðskautum mannvirkja og hvernig frá þeim er gengið. Í eldra húsnæði hafa jarðskaut stundum verið aftengd þegar skipt er um lagnakerfi undir húsum en í nýrri húsum er gjarnan ekki gengið rétt frá í upphafi.

Í skýrslu Orkulausna um spennujöfnun og jarðbindingu mannvirkja eftir Hall Hallsson og Sveinbjörn Einarsson er bent á ýmislegt í reglugerðarumhverfi okkar sem betur má fara. Einnig er bent á að túlkun á reglugerðum er mismunandi á milli orkufyrirtækja og enn að hönnun rafkerfa húsa og mannvirkja er oft ábótavant í meira lagi ef fylgja á reglugerðum. Þær aðferðir sem Brynjólfur Snorrason hefur þróað hafa dugað mjög vel til þess að uppræta og fyrirbyggja rafmengun. Hann hefur stundað rannsóknir á fyrirbærinu í fjölda ára og tekist að þróa lausnir til að draga úr rafsegulsviði og yfirtíðni í byggingum ásamt því að minnka leiðni hita í búnaði rafmagnstaflna.

Í skýrslu Orkulausna er gerð grein fyrir nokkrum verkefnum þar sem aðgerðir Brynjólfs hafa orðið til þess að gera húsnæði nothæft hvað varðar tölvubúnað og fleiri tæki og einnig í landbúnaði þar sem í kjúklingabúum hefur verið ráðist gegn kampýlóbakter, júgurbólgu í kúm og sauðfé o.fl. og þetta hefur oft einu nafni verið nefnt húsasótt.

Nú er það svo að ekki hafa allir aðgang að Brynjólfi Snorrasyni og félögum í Orkulausnum. Það er því spurning hvernig neytendavernd er háttað þegar um svo tæknilegt mál er að ræða og í raun ósýnilegt svið fyrir allan almenning.

Ég hef því lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. viðskiptaráðherra:

1. Hvernig er eftirliti háttað með framkvæmd á reglugerð um raforkuvirki þar sem mælt er fyrir um fyrirkomulag og gerð jarðskauta og jarðskautstauga? (Forseti hringir.)

2. Hvert geta neytendur snúið sér með kærur vegna ónógs frágangs á jarðskautum?

3. Hver er ábyrgð hönnuða á því að frágangur jarðbindinga sé í samræmi við reglugerðina?