Bætur almannatrygginga

Miðvikudaginn 07. maí 2008, kl. 15:57:48 (7245)


135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

bætur almannatrygginga.

[15:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á haustdögum 2006 sameinaðist þáverandi stjórnarandstaða undir forustu Samfylkingarinnar um það að flytja þingmál um nýskipan lífeyrismála. Fyrsti flutningsmaður var núverandi utanríkisráðherra. Fjórði flutningsmaður var núverandi tryggingamálaráðherra.

Kjarninn í þessari nýskipan lífeyrismála var sá sem stjórnarandstaðan þáverandi sameinaðist um að bera fram til að koma á fót afkomutryggingu fyrir aldraða og öryrkja. Það sem var sérstaklega og harðlega gagnrýnt af hálfu stjórnarandstöðunnar á þeim tíma var að á árinu 1996 hefði verið afnumin tenging bóta almannatrygginga við vikukaup verkamannavinnu með þeirri afleiðingu að kjör aldraðra og öryrkja hefðu rýrnað verulega. Sem dæmi um það hafi kaupmáttur lágmarkslauna aukist um 56% en kaupmáttur lífeyris aðeins um 25%.

Eftir kosningar komst Samfylkingin í þá lykilaðstöðu að geta valið um samstarfsaðila í nýrri ríkisstjórn. Hún hlaut auðvitað að velja þá eftir því hvað væri líklegra til þess að ná fram því máli sem flokkurinn berðist hvað harðast fyrir, nýskipan lífeyrismála, bættum kjörum elli- og örorkulífeyrisþega, eða hvað?

Hún valdi Sjálfstæðisflokkinn með þeirri niðurstöðu að áfram gildir hin gamla skipan lífeyrismála. Það er áfram þannig að kjör elli- og örorkulífeyrisþega samkvæmt bótum trygginga hækka minna en lágmarkstaxtar kaups.

Hvernig má þetta nú vera, virðulegi forseti, að öllum stóru orðunum, hinni miklu stefnu sem flutt var hér í þinginu, að það sé búið að pakka henni niður í samstarfi við (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkinn?