Tekjuskattur

Fimmtudaginn 08. maí 2008, kl. 15:22:16 (7312)


135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei gert lítið úr heimssýn hv. þingmanns og ég reikna með því að hún sé alveg rétt úr frá hans sjónarhorni. Ég virði hana. Ég hef bara allt aðra heimssýn. Ég t.d. er ánægður með það að hér hafi myndast alþjóðleg fyrirtæki sem skapa þúsundum manna hálaunuð störf. Þá er ég að nefna bankana sem allir eru orðnir alþjóðlegir og hafa stóran hluta af tekjum sínum erlendis frá, sem streyma inn í landið og veita fólki þjónustu og öllu í kringum sig miklar tekjur og vinnu.

Ég er mjög ánægður með það. Ég er mjög ánægður með þann litla þátt sem ég hef átt í því að hér hafa myndast hálaunafyrirtæki með hálaunastörfum. Þau draga nefnilega með sér önnur laun í landinu. Þau valda því að hér er lítið atvinnuleysi, eiginlega ekki neitt, og það verður til þess að öryrkjar og þeir sem fátækari eru eiga auðveldara með að fá vinnu og eru hærra launaðir. Þetta er bara þannig.

Laun hafa hækkað hér á landi, síst minna en annars staðar. Ef hv. þingmaður getur nefnt mér eitt land þar sem laun hafa hækkað meira umfram verðlag á síðustu 10–15 árum þá er ég mjög ánægður með það. Ég er búinn að leita að því lengi. Þetta er því mjög góð niðurstaða.

Ég tel að þessi heimssýn mín og fjölmargra annarra sé ekkert verri þó að hún hafi skapað þetta, ekkert verri. Undirstaða þess að við getum haft sterkt velferðarkerfi er að hér sé fólk sem borgar háa skatta og fyrirtæki sem veita hálaunastörf. Það er bara niðurstaðan úr þessu öllu saman og tímasetningin núna er einmitt rétt í þessu frumvarpi. Það segir atvinnulífinu og öllum í heiminum að ríkisstjórnin stendur með atvinnulífinu en ekki gegn því.