Tekjuskattur

Fimmtudaginn 08. maí 2008, kl. 16:37:37 (7330)


135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:37]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sjaldan eða aldrei heyrt nokkurn þingmann flýja úr einum málflutningi á jafnskömmum tíma og hér varð raunin. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að verið væri að færa byrðar af fyrirtækjum yfir á almenning. Hér er um það að ræða að verið er að lagfæra skattalöggjöf í raun og veru þannig að það eru skattskuldbindingar inn í fyrirtækjum sem aldrei innheimtast. Þetta mun ekki hafa nokkur áhrif á ríkissjóð. Þrátt fyrir það flytja menn svona innblásnar ræður með jafnmiklum stóryrðum eins og raun ber vitni enda held ég að staðreyndin sé sú að það sé nokkurn veginn þannig að þegar hefur komið til breytinga á skattalögum hafi Vinstri hreyfingin – grænt framboð undantekningarlaust haft rangt fyrir sér. Ég held að það sé nokkurn veginn staðreynd og ef nokkur getur bent mér á eitthvað annað þá er ég tilbúinn til að ræða það. En ég held að það sé nokkurn veginn svona (Forseti hringir.) að þær tillögur sem Vinstri grænir hafa lagt fram þegar kemur að breytingum á skattalögum hafa ekki reynst góðar.