Tekjuskattur

Fimmtudaginn 08. maí 2008, kl. 17:40:34 (7350)


135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:40]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa strax í upphafi yfir miklum vonbrigðum með þá fundarstjórn sem hér er viðhöfð og að forseti skuli ekki verða við eðlilegum óskum um að hægt sé að eiga orðastað við forustumenn hér í þinginu um svona mikilvægt mál. Það er hrein og klár valdníðsla í raun ...

(Forseti (ÁRJ): Það er búið að gera ráðstafanir.)

(Gripið fram í.) að það skuli ekki vera ... Já, þá á að fresta umræðunni þangað til þingmaðurinn er kominn í hús og getur átt orðastað við aðra þingmenn.

Ég vil taka til máls að nýju um þetta mál vegna þess að það er á þeim tíma sem okkur gefst ekki kannski færi á að fara yfir þetta mál í heild sinni. Þetta er viðamikið mál eins og hér hefur komið fram. Ég vil í þessari ræðu fyrst og fremst tala um mikilvægi skattheimtu almennt til þess að afla tekna til samfélagsþjónustunnar og hversu mikilvægt er að rekin sé ákveðin tekjujöfnunarpólitík í gegnum skattkerfið.

Í velferðarsamfélagi eins og því sem við viljum og teljum okkur vera viljum við halda uppi öflugri samfélagsþjónustu sem stendur landsmönnum til boða óháð efnahag. Hér erum við að tala um hluti eins og heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustuna og menntakerfið, skólagönguna. Þetta eru kannski grundvallarstoðir velferðarþjónustunnar. En að sjálfsögðu erum við af hálfu samfélagsins að fjárfesta í fjölmörgum öðrum málaflokkum, t.d. á sviði samgangna, í umhverfismálum, í atvinnumálum, byggðamálum og svo framvegis. Til þess að samfélagið hafi fjármuni til að standa undir þessum mikilvægu þáttum þurfum við að sjálfsögðu að afla fjár. Skoðanakannanir hafa sýnt að fólk almennt í landinu borgar skattana sína með glöðu geði. Það veit að skattarnir fara til góðra samfélagslegra verka. Fólk vill heldur greiða fyrir samneysluna í gegnum skattkerfið en til dæmis með þjónustugjöldum. Þannig vill fólk heldur borga fyrir heilbrigðisþjónustuna í gegnum skattkerfið meðan það er frískt en að þurfa að borga aðgöngumiða inn í Landspítalann þegar það verður veikt. Þetta er svo mikilvægt í velferðarsamfélaginu að það verður aldrei of oft á það lögð áhersla. Þess vegna er svo mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum til samneyslunnar, líka stórfyrirtækin, líka fyrirtækin sem menn hafa áhyggjur af að fari úr landi. Þau verða að skilja að það verður engin sátt og samstaða í samfélaginu nema allir leggi sitt af mörkum og það verður að gerast með sanngjörnum hætti. Það sem við höfum verið að gagnrýna hér fyrst og fremst er að það er verið að flytja til skattbyrði í raun og veru. Það er verið að taka einn ákveðinn hóp út og segja: „Hann á ekki að þurfa að borga skatt.“ Svo koma talsmenn þessa stjórnarfrumvarps og segja: „Ja, það hefði svo lítið komið inn hvort eð var.“ Ja, margt smátt gerir eitt stórt, má kannski segja í þessu, fyrir nú utan að það eru áhöld um það hversu miklum tekjum ríkissjóður verður af við þessar breytingar og það fæst ekki einu sinni rætt hér á þinginu við formann fjárlaganefndar hvaða áhrif þetta hefur á fjárlög ársins og næstu ára.

Það er alveg með eindæmum hvernig staðið er að málum hér og ríkisstjórnin virðist ætla að knýja þetta mál í gegn. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum ekki síst gagnrýnt Samfylkinguna, ekki vegna þess að okkur sé eitthvað verr við Samfylkinguna en Sjálfstæðisflokkinn per se heldur vegna þess að þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins og við höfum alltaf mátt búast við henni af hans hálfu. Við höfum hins vegar haft meiri væntingar til þess að Samfylkingin og jafnaðarmannaflokkurinn mundi reka hér einhverja samfélagslega áherslu í skattamálum. Því er ekki að heilsa og þess vegna verður hann að þola gagnrýni og þess vegna svíður honum undan gagnrýni af því að hann hefur vondan málstað að verja. Hann veit upp á sig skömmina og það er auðvitað kjarninn í þessu máli og þeirri gagnrýni sem við höfum lagt fram.

Við höfum bent á að Alþýðusambandið hefur í mjög ítarlegri umsögn, fyrst umsögn og svo viðbótarumsögn, (Gripið fram í.) lýst yfir eindreginni andstöðu við að þetta frumvarp verði samþykkt og það á að taka mark á slíkri umsögn.