Umræða um Evrópumál

Fimmtudaginn 15. maí 2008, kl. 10:48:03 (7387)


135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

umræða um Evrópumál.

[10:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það sem ég átti við með hvað væri ótímabært, herra forseti, var að það er ótímabært að tala um einhverjar dagsetningar um þjóðaratkvæðagreiðslu, (Gripið fram í.) það held ég að sé algjörlega ótímabært. Umræðan um Evrópusambandið er búin að vera í gangi um langan tíma og mun halda áfram.

Hvað varðar Evrópunefndina hefur hún ekki fengið neina stífa forskrift. Hún hefur heilmikið frjálsræði í störfum sínum og hlutverk hennar er að vakta þessi mál, fylgjast með því sem er að gerast. Það er mjög margt að gerast í þessum málum þessa dagana og ég held að við höfum lagt upp með ágæta starfsemi þar. Það hefur reyndar verið unnið ágætlega að þessum málum innan Stjórnarráðsins á síðasta kjörtímabili og það liggja fyrir ýmsar skýrslur um það sem sjálfsagt er að nefndin hafi hliðsjón af. Ég gæti nefnt a.m.k. þrjár skýrslur sem fyrir liggja sem eru gott veganesti og hafa bæði verið unnar undir forustu, herra forseti, framsóknarmanna og sjálfstæðismanna.